„Við erum með fjór­ar vél­ar og erum að keyra tvær þeirra á full­um af­köst­um núna. Þær fram­leiða eins og þær eiga að gera, skila um fimm mega­vött­um. Þegar við verðum kom­in með alla sjó­dæl­ingu í botn mun­um við nota í kring­um 550 lítra á sek­úndu.“

Þetta seg­ir Ívar Atla­son, svæðis­stjóri vatns­sviðs HS Veitna í Vest­manna­eyj­um, í Morg­un­blaðinu í dag.

Unnið er að gang­setn­ingu næst­stærstu sjóvarma­dælu­stöðvar í heimi í Vest­manna­eyj­um. Hún er 10,4 mega­vött. Þar verður 6-11 gráða heit­ur sjór notaður sem varma­gjafi stöðvar­inn­ar til hús­hit­un­ar í Eyj­um. Bú­ist er við því að dælu­stöðin verði kom­in í fulla notk­un í næstu viku, að því er fram kem­ur í blaðinu.

mbl.is greindi frá