Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í gær báðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins um umræður vegna ráðningu æskulýðs-,tómstunda- og íþróttafulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ.

Leitast verði við að nýta þá miklu þekkingu sem er nú þegar til
Bókun D lista: „Á sama tíma og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja sjá öflugt utanumhald í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmálum er mikilvægt að kostnaður vegna þessa sé ekki hrein viðbót við útgjöld bæjarfélagsins, sem þegar eru um 440 milljónir á ári í málaflokknum. Leitast verði við að aukið utanumhald skili sér í hagræðingu í málaflokknum sem aftur skilar sér í markvissara íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi sem rekið er í sátt, samlyndi og í öflugu samstarfi við þau félagsamtök sem eru að vinna nú þegar á þessu sviði.
Einnig verði leitast verði við að nýta þá miklu þekkingu á málaflokknum sem starfsfólk fjölskyldusviðs býr yfir, áður en útgjöld eru aukin. Innan málaflokksins eru nú þegar tvö tengd störf þar sem starfsmenn eru ekki í fullu starfi. Þar sem umrædd staða á einnig að vera hlutastarf telja undirritaðir að í stað þess að ráða nýjan starfsmann sé nærtækara að hækka starfshlutfall viðkomandi starfsmanna og færa þeim aukin verkefni. Í framhaldi af því má skoða þann möguleika að útvista ákveðnum verkefnum til félaga og félagasamtaka.
” (sign. Gísli Stefánsson og Páll Marvin Jónsson)

Bókun H og E lista: „Meirihluti fjölskyldu- og tómstundaráðs fagnar því að meirihluti bæjarstjórnar hafi samþykkt 50% stöðu æskulýðs, tómstunda og íþróttafulltrúa. Enda mikil þörf á stöðugildinu eins og fram kom í minnisblaði framkvæmdastjóra sviðsins. Eins og umræðan hefur sýnt og endurspeglast í samfélaginu þá er þörf á ábyrgðaraðila fyrir forvarnir og fræðslu fyrir börn og ungmenni.” (sign. Helga Jóhanna Harðardóttir, Haraldur Bergvinsson og Hrefna Jónsdóttir).