Meðal þess sem rætt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í gær, þriðjudag, var framtíðarlausn fyrir tjöldun í tengslum við Þjóðhátíð.

Meirihlutinn lagði fram bókun og harmaði ábyrgðarleysi fulltrúa D-listans að hafa opinberað kostnaðartölur við tjaldsvæði ofan við Hástein og að suður af Týsheimili . „Fulltrúar E og H listans telja mikilvægt að koma á framtíðarlausn fyrir tjöldun í tengslum við Þjóðhátíð þar sem tjaldsvæði fyrir Þjóðhátíð hefur verið til bráðabirgða til 5 ára á byggingareiti við Áshamar. Sú ákvörðun var aldrei grenndarkynnt enda fór hún ekki formlega inn í ráðið og því engin gögn til um ákvörðunina.
  Einnig harma fulltrúar E og H listans það ábyrgðaleysi fulltrúa D-listans þar sem þeir bókuðu á 293 fundi um kostnaðartölur og veikja þannig samningsstöðu Vestmannaeyjabæjar með því að opinbera þær. Kostnaður tilheyrir ekki ráðinu en fulltrúar D-listans höfðu ekkert um skipulagið að segja sem tilheyrir ráðinu. Fulltrúar verða að skilja hlutverk sitt í ráðum og halda sig við það sem tilheyrir þeirra ráði,” segir í bókuninni.

Þessu vísuðu Sjálfstæðismenn á bug og sögðu það fjarri lagi vera ábyrgðarleysi að hugsa um skattfé íbúa. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja fjarri lagi að það sé ábyrgðarleysi að hugsa um skattfé íbúa og vísa því á bug. Þvert á móti er það mat okkar að ábyrgðarleysi sé að hugsa ekki út í kostnaðartölur við ákvarðanatöku sama hvers eðlis málið er, en umræddar kostnaðartölur voru þess eðlis að okkur þykir ekki verjandi að fara í þessa framkvæmd og höfum m.a. komið með tillögur að öðrum ódýrari lausnum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru fullfærir um að skilja sitt hlutverk í ráðinu hjálparlaust og frábiðja sér fullyrðingar um annað.”