Mega Eyjamenn ekki vita kostnaðinn ?

Eyþór Harðason

Þar sem eyjamiðlarnir eru duglegir við að upplýsa bæjarbúa úr fundargerðum Vestmannaeyjabæjar, þá er tilefni til að skrifa um afar sérstaka bókun frá nefndarmönnum E og H listans í Umhverfis og Skipulagsráði þann 13.nóvember 2018 sem sjá má á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Ég varð orðlaus þegar ég las þessa bókun í heild sinni og þurfti að lesa hana nokkrum sinnum til að fullvissa mig um skilning á henni.

Eins og flestir vita þá er þjóðhátíðin það mikilvæg fjáröflun fyrir ÍBV Íþróttafélag og marga rekstraraðila í bænum, að bæjarbúar taka almennt höndum saman um að sína mannmergðinni þolinmæði og skipuleggjendur hátíðarinnar leggjast á eitt með að koma þessu þannig fyrir að sem minnst röskun verði í íbúðahverfum bæjarins. Ein af stóru ákvörðunum fyrir nokkrum árum var að Vestmannaeyjabær ákvað að svara kvörtunum bæjarbúa með tjaldsvæði á lóðum um allan bæinn, með því að girða stóra óbyggða lóð við Áshamar og bjóða uppá tjaldsvæði á meðan hátíðin stæði yfir. Almennt voru bæjarbúar ánægðir með þetta framtak, þó svo að íbúar við Áshamar hafi fengið meiri umferð í sínu hverfi, þá sjá allir að einhvernveginn þarf að leysa þessi mál og þótti þetta góð lausn.

Nú sér E listinn sér ekki annað fært en að bóka gegn þessu fyrirkomulagi mörgum árum eftir að þetta byrjaði og segja að þetta hafi aldrei verið afgreitt í kerfinu og gefið í skyn að eitthvað óeðlilegt sé í gangi. Hefði E listinn ekki mátt gera athugasemdir við þetta fyrr ef þau höfðu eitthvað við þetta að athuga ?

Síðan kemur rúsinan í pylsuendann í bókuninni frá E og H listanum. En þar eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndir fyrir það að gefa Eyjamönnum og skattgreiðendum upp áætlaðan kostnað við nýtt tjaldsvæði uppá þriðja tug milljóna sem notað væri 5 daga á ári. Í bókuninni er okkur bent á að það sé ekki okkar verkefni að meta kostnað við ákvarðanir. En margoft höfum við bent þeim á ódýrari lausnir í þessu máli þó svo að þau kjósi að segja annað.

Almennt tíðkast reyndar a.m.k. hjá opinberum aðilum að gefa upp kostnaðarmat áður en farið er í útboð. H og E listinn vilja breyta þessu. Enginn má vita hversu marga tugi milljóna tjaldsvæðið eigi að kosta fyrr en kostnaðurinn er fallinn. Var ekki lofað gagnsæi ?

Ég vona að Sérfræðingarnir í E og H listanum vinni ekki lengi í ráðum bæjarins með þann skilning að leiðarljósi að fjármunir skipti ekki máli við ákvarðanatökur – ef ekki þá verða þau ekki lengi að sigla skútunni í strand.

Eyþór Harðarson, nefndarmaður í Umhverfis og skipulagsráði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.