Hin unga vestmannaeyska þungarokkshljómsveit Merkúr sem kom, sá og sigraði á góðgerðartónleikum Samferða nú í október, fagnar eins árs amæli í dag og sendir af því tilefni frá sér sitt fyrsta lag, Welcome to hell. Lagið er af væntanlegri plötu Apocalypse Rising.

Hljómsveitin Merkúr. Arnar Júlíusson gítarleikari og söngvari og Mikael Magnússon trommari.

„15. nóvember í fyrra var ákveðið að við strákarnir myndum hittast og spila saman nokkur lög. Við byrjuðum á því að spila heima hjá okkur og því var erfitt að hittast reglulega útaf fjölskyldum okkar. Síðan fengum við að æfa okkur á háaloftinu í gamla Geisla og þá byrjuðum við að taka þessu alvarlega. Vil nota tækifærið og þakka Tóta í Geisla kærlega fyrir stuðninginn,” sagði Arnar Júlíusson, gítarleikari og söngvari Merkúr í spjalli í nýjasta blaði Eyjafréttir.  „Við erum oftast með tvær æfingar á viku sem hefur virkað mjög vel fyrir okkur, en uppá síðkastið höfum við verið að hittast meira vegna tónleika og upptöku á plötu.”

Ásamt Arnari skipa hljómsveitina Mikael Magnússon á trommur, Trausti Mar Sigurðsson á gítar og Jökull Elí Þorvaldsson á bassa. „Ég, Mikael og Trausti skiptum þessu frekar jafnt á okkur og við erum ekki hræddir að koma með hugmyndir. Oftast er það þannig að annaðhvort ég eða Trausti komum með eitthvað „riff” sem við byggjum lagið í kringum, Mikael sér um trommur og texta og ég sé um sóló gítarinn,” sagði Arnar aðspurður um tilurð laganna.

Hljómsveitin Merkúr. Jökull Elí Þorvaldsson bassaleikari.

Á plötunni „Apocalypse Rising“ sem við erum að gera núna erum við með „concept” eða þema sem við fylgjum. Sagan segir frá einhverjum eða einhverju sem rís úr undirheimunum til þess að hefna sín á mannkyninu og eyða heiminum, alvöru þungarokk sko. Þessi saga er sögð frá mismunandi sjónarhornum frá upprisu til heimsendir.”

En hvaðan kemur nafnið? „Merkúr er ekki fyrsta nafnið og hafa þau verið nokkur. Við vildum hafa eitthvað íslenskt nafn sem væri samt auðþekkjanlegt á ensku. Ef ég man rétt þá var það Trausti gítarleikari sem kom með nafnið.”

Hljómsveitin hefur verið starfandi í eitt ár í dag 15. nóvember og senda strákarnir því frá sér sitt fyrsta lag. Upphaflega var áætlað að platan kæmi út þennan dag en það hafðist ekki þar sem taka þurfti upp nokkra hluti aftu. Arnar sagðist reikna með að hún kæmi út í næstu viku.

 

Trausti Mar Sigurðarson, hljómsveitin Merkúr.

Til að minnka kostnað við útgáfuna ákvað Arnar einfaldlega að læra upptökur upp á eigin spítur. „Við erum alveg heimagerð hljómsveit og tók ég allt upp, mixaði og masteraði allt saman. Við erum námsmenn og höfum ekki efni á flottu stúdíói, því ákvað ég bara að læra þetta sjálfur og gera það. Það tók sinn tíma að læra á allt þetta allt saman en ég er ungur og áhugasamur.”

Hvenær á fólk von á að heyra í ykkur næst? „Ætli það verði ekki bara hent í útgáfutónleika í desember eða eitthvað svoleiðis. Við erum auðvitað nýbyrjaðir og enn að læra hvernig þetta virkar alltsaman. En það er klárt mál að við spilum aftur á næstunni, bara fylgjast með okkur á samskiptamiðlunum.”

Strákarnir hafa einnig alla tíð stefnt á þátttöku í Músíktilraunum og verður spennandi að fylgjast með hvernig þeim vegnar þar. „Svo er bara að fylgjast með nýju plötunni okkar í nóvember og auðvitað tjékka á okkur á facebook. Takk fyrir okkur,” sagði Arnar að lokum.

Hljómsveitin Merkúr.