Tjaldstæðin

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Á 290. fundi Umhverfis- og skipulagsráðs var stofnaður vinnuhópur til að finna framtíðarlausn fyrir tjaldsvæði á Þjóðhátíð. Tjaldsvæði á Þjóðhátíð hafa verið til bráðabirgða síðustu fimm ár á byggingasvæði í Áshamrinum. Þegar tekin var ákvörðun um að fara með tjaldsvæðið í Áshamarinn fyrir fimm árum var sú ákvörðun aldrei grenndarkynnt enda fór hún ekki formlega inn í ráðið og því engin gögn til um ákvörðunina.

Vestmannaeyjabær ber ábyrgð á tjaldsvæðum og því mikilvægt að finna framtíðarlausn í þessu máli. Sem ekki bara snýr að Þjóðhátíð heldur lausn fyrir tjaldsvæði með takmarkaða notkun.

Hópurinn skoðaði nokkur svæði og mátu þau.

Svæði vestan við Hásteinsvöll, svæði sunnan við Týsheimili, svæði á golfvellinum og fótboltavelli.

Í framhaldi af þessari vinnu var lögð fram tillaga fyrir ráðið, svæði sunnan við Týsheimili.

Meirihlutinn í Umhverfis- og skipulagsráði var tilbúinn að samþykkja skipulagshlutann, sem er verkefni ráðsins í þessu máli sem og öðrum skipulagsmálum.

Þar sem ekki var samstaða í ráðinu um það var ákveðið að vísa málinu aftur í vinnuhópinn til að vinna betur að þeim tillögum sem fyrir voru og fá fleiri tillögur. Sú vinna er í gangi núna.

Meirihluti ráðsins lagði til að fulltrúi frá D-listanum yrði með í þeirri vinnu en ekki var vilji til þess hjá fulltrúum D-lista í ráðinu. Mín ósk var og er enn sú að fulltrúar D-listans taki þátt í þessari vinnu svo hægt verði að vinna þetta saman.

Allir eru sammála um að framkomnar kostnaðartölur séu háar. Þær kostnaðartölur sem lagðar voru fyrir ráðið voru hámarkskostnaðartölur þar sem mikil óvissa er með það magn sem þarf að keyra í svæðið en sá þáttur er aðalkostnaðurinn. Um er að ræða bráðabirgðartölur sem eru ekki opinber gögn á þessu stigi í ferlinu enda hefur Umhverfis- og skipulagsráð ekki ákvörðunarvald er kemur að kostnaði og því mjög óeðlilegt að bóka um slíkt eins og fulltrúar D-listans gerðu á 293. fundi Umhverfis- og skipulagsráðs. Að sjálfsögðu fær ráðið inn til sín kostnaðartölur sem notaðar eru í mati en hlutverk Umhverfis- og skipulagsráðs er að samþykkja skipulagið á svæðinu eins og fyrr er getið. Síðan er það Framkvæmda- og hafnarráðs að bjóða verkið út og þá er endanleg ákvörðun tekin. Með því að opinbera slíkar kostnaðartölur er verið að upplýsa verktaka um kostnaðartölur og er það verklag sem starfsmenn sviðsins hafa forðast því það veikir stöðu Vestmannaeyjabæjar í útboðum.

Að lokum vil ég nefna að einnig kemur fyrir í bókun frá fulltrúum D-listans á 293. fundi Umhverfis- og skipulagsráðs að í tillögum frá hópnum komi fram að notkunin verði fimm dagar á ári. Það kemur hvergi fram. Talað er um takmarkaða notkun og gott að halda því til haga.

Með ósk um samvinnu og samstarf í þessu máli sem og öðrum.

Formaður Umhverfis- og skipulagsráðs

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir