Bjóráhugamenn bíða öllu jafnan spenntir eftir dagsetningunni 15. nóvember ár hvert. En þá hefst sala jólabjóra í Vínbúðum landsins.

Bjórsmakkhópur vefsíðunnar Vinotek.is smakkað sig á dögunum í gegnum flesta þá bjóra sem í boði eru í ár. En þeir eru um fjörtíu talsins. Smakkhópinn skipuðu Guðbjörg Þorsteinsdóttir, Haukur Heiðar Leifsson, Svala Lind Ægisdóttir, Jenny Hildur Jónsdóttir, Steinn Stefánsson og Steingrímur Sigurgeirsson. Allir bjórarnir voru smakkaðir blint, það er að segja einungis einn í hópnum vissi hvað var verið að smakka hverju sinni nema hvað að þeim var raðað eftir þyngd, byrjað á léttari bjórum og haldið áfram yfir í þyngri, dekkri og áfengismeiri bjóra.

Þegar það kom að smakki á bjórum þar sem alls konar brögðum er bætt við var það Leppur frá The Brothers Brewery sem stóð uppúr að mati hópsins. „Einn bjór bar hins vegar af þegar hingað var komið. Hann heitir Leppur og er kaffi stout frá einu af yngstu bjórhúsum landsins, Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Áberandi kaffiilmur og kryddaður, magnaður bjór, örlítið beiskur en ekki ýtinn, flæðir vel á milli bragða. Einn besti jólabjórinn í ár!”

Ekki nóg með það heldur eftir að hafa smakkað alla fjörtíu bjórana var hópurinn sammála um að Leppur væri bjór ársins. „Niðurstaða smökkunarinnar? Panellinn var sammála um að Leppur frá Brothers væri bjór ársins í hópi léttari bjóra og að Jóla Huml frá Viking væri afburðabjór í flokki léttari, ljósra bjóra. Þegar kemur að „stærri“ bjórum var niðurstaðan líka skýr. Jólakisi og Delirium Christmas eru jólabjórarnir í ár.”

Síðara jólabjórasmakk á ölstofu The Brothers brewery fór einnig fram um helgina og verða niðurstöðurnar kynntar í blaði Eyjafrétta í næstu viku. Verður spennandi að sjá hvernig Leppi reiðir af á heimavelli.