Hlutverk minnihluta í sveitastjórnum er að veita virkt aðhald á stjórnvöld hvers tíma. Kalla eftir rökstuðningi fyrir ákvörðunum, sýna aðhald og ráðdeild í fjármálum og gæta þess að góðir stjórnarhættir séu viðhafðir í stjórnkerfi bæjarins. Á mannamáli kallast það að vinna sína vinnu, sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa vissulega verið að gera í minnihluta. Að sjálfsögðu kemur upp pólitískur ágreiningur þegar tekist er á um sum mál, enda ólík stjórnmálaöfl sem mynda bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Sammála í 93% tilvika
Sú mynd hefur verið máluð af þeim sem vilja finna Sjálfstæðisflokknum allt til foráttu að Sjálfstæðisflokkurinn sé ,,bara á móti til að vera á móti”. Þetta er ekki bara mistúlkun, heldur ósannindi. 93% allra mála sem afgreidd hafa verið hjá Vestmannaeyjabæ frá síðustu kosningum hafa verið samþykkt án athugasemda. Samhugur hefur verið innan bæjarstjórnar um mikilvæg hagsmunamál m.a. á borð við heilbrigðismál og dýpkun í Landeyjahöfn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa einnig lagt fram jákvæðar og uppbyggilegar bókanir á fundum bæjarstjórnar vegna ýmissa mála sem fulltrúar H- og E- lista hafa gjarnan tekið undir og er það vel. Merkilegast er að þeir sem hæst höfðu á síðasta kjörtímabili um hversu mikil ró og spekt væri í stjórnmálunum og fyndist ótækt að öll mál færu 7-0 hrópa nú á torgum um hversu óstýrilátir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru. Það skyldi þó ekki vera að góð upplýsingagjöf, gagnkvæm virðing og samvinna hafi einmitt skapað það góða samstarf sem einkenndi síðasta kjörtímabil, en slíku virðist minna fara fyrir um þessar mundir.

Ánægja með að tillögur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins fái jákvæðar undirtektir
Tillaga að skoðun möguleika á viðbyggingu við Hamarsskólann, frístundastyrkur upp að 18 ára aldri og lækkaður fasteignaskattur eru tillögur sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa unnið að og lagt til á kjörtímabilinu inni á fundum ráða bæjarins. Sjálfstæðisflokkurinn lýsti yfir ánægju á síðasta bæjarstjórnarfundi með jákvæðni H- og E-listans gagnvart þessum tillögum og fagna því að taka eigi tillit til þeirra við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.

Að kasta steinum úr glerhúsi
Við getum þó ekki látið hjá líða að harma þær aðdróttanir og ósanngirni sem formaður bæjarráðs beinir gegn fulltrúum Sjálfstæðisflokksins um að þeir komi óundirbúnir til fundar og hafi ekki kynnt sér mál sem þeir hafi sannarlega aldrei verið upplýstir um. Undirritaðar vita fullvel að þeir kjörnu fulltrúar sem sitja í ráðum og nefndum gera það fyrst og fremst af hugsjónum, sama hvar í flokki þeir sitja og leggja sitt að mörkum við að vinna að hag og framförum bæjarfélagsins. Hugsjónirnar og leiðir að markmiðum eru hins vegar ekki alltaf þær sömu og það ber að virða. Til að mynda hefði það verið forgangsmál fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að mæta á boðaðan fund samgöngunefndar Alþingis í síðustu viku þar sem verið var að ræða samgönguáætlun næstu ára, eins gríðarlegt hagsmunamál og það er fyrir

Vestmannaeyinga og enn hefur ekki verið skilað inn umsögn um samgönguáætlun næstu ára líkt og samgöngunefnd Alþingis óskaði eftir fyrir um mánuði síðan, né nokkurt samstarf um slíka umsögn hafið þrátt fyrir að skilafrestur sé löngu liðinn líkt og kemur fram á vef Alþingis.

Falsfréttir
Undanfarið hefur umræða um falsfréttir verið áberandi. Það er því ekki laust við að slíkum hugtökum skjóti upp í hugann þegar haldið er fram að ítrekað sé vegið að heiðarleika og æru nefndarmanns hjá bænum, þegar það rétta er að ágreiningur var um hæfi nefndarmanns í einu máli vegna starfs hans og kom persóna hans aldrei við sögu. Það er beinlínis skylda nefndarmanna skv. 20. grein sveitarstjórnarlaga að láta vita telji þeir hæfi annars nefndarmanns orka tvímælis. Formaður bæjarráðs er því í raun að gagnrýna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir það eitt að rækja lögbundnar skyldur sínar.

Vinnan okkar
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins láta verkin tala og hafa unnið af staðfestu að ýmsum málum. Má þar nefna niðurfellingu fasteignagjalda eldri borgara, staðið af einurð með stjórn Herjólfs ohf. og því mikilvæga hlutverki er hún gegnir. Við höfum staðið með fulltrúum H- og E-lista í góðum málum og munum gera það áfram. En við munum ekki sitja þegjandi hjá í málum sem að okkar mati eru ekki faglega eða vandlega unnin eða halla með einhverjum hætti á hagsmuni bæjarbúa. Það er einmitt okkar hlutverk, yfirlætislegar athugasemdir þar um breyta engu heldur gera okkur aðeins staðfastari í þeirri vinnu. Gagnkvæm virðing, góðir mannasiðir og góð vinnubrögð eru leiðarstef fulltrúa okkar hjá bæjarfélaginu. Það er meginforsenda góðs árangurs og forsenda þess að allir geti unnið gott starf jafnt í meiri- og minnihluta.

Helga Kristín Kolbeins, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins