Á fundi bæjarráðs síðastliðinn þriðjudag var lögð fram beiðni um fjármagn til að kosta greiningarvinnu á rekstrarkostnaði, þjónustu og mönnun Hraunbúða og samanburð við aðrar sambærilegar einingar.

Fór svo að bæjarráð samþykkti fjárheimildina, að upphæð 2,5 m.kr, með tveimur atkvæðum E- og H-lista gegn einu atkvæði D-lista. Greiningin verður framkvæmd af Noltu-ráðgjöf og þjálfun.

Trausti Hjaltason fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði taldi fjármunum sveitarfélagsins betur varið í beina þjónustu í málaflokknum og lagði fram eftirfarandi bókun. „Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að fjármunum sveitarfélagsins sé betur varið í beina þjónustu í málaflokknum heldur en að eyða peningum í að fá fyrirtæki úr Reykjavík til að gera minnisblað um rekstur Hraunbúða og skoða rekstrartölur sem nú þegar liggja fyrir.”

Fulltrúar meirihlutans sögðu þetta gert eftir samtal við starfsfólk og yfirmenn á Hraunbúðum með það fyrir augum að efla þjónustuna. „Í kjölfar funda sem bæjarfulltrúar áttu með starfsfólki og yfirmönnum á Hraunbúðum í haust kom fram vilji til þess að fara yfir þá þjónustu sem veitt er á Hraunbúðum. Meirihluti bæjarráðs telur mikilvægt og nauðsynlegt að greina stöðu Hraunbúða með það fyrir augum að efla þjónustu til framtíðar.”