Bæjarstjórn hélt sinn 1540. fund í gær fimmtudaginn 22. nóvember. En þann dag fyrir 100 árum voru lög frá Alþingi um kaupstaðarréttindi fyrir Vestmannaeyjabæ staðfest af konungi. Aðeins eitt mál var á dagskrá, 100 ára afmæli kaupstaðarréttinda Vestmannaeyjabæjar.

Elís Jónson forseti bæjarstjórnar setti fund og fór yfir ágrip um aðdraganda þess að Vestmannaeyjabær hlaut kaupstaðarréttindi. Ennfremur las hann upp tillögu er lá fyrir fundinum.

„Það hafa skipst á skin og skúrir í langri sögu byggðar í Vestmannaeyjum. Gríðarleg áföll af völdum Tyrkjaránsins 1627, mannskæðra sjóslysa, mikils ungbarnadauða, brottflutnings til Vesturheims og loks eldgossins á Heimaey 1973, höfðu hver um sig afgerandi áhrif á þróun byggðar og mannlífs í Eyjum. Íbúafjöldinn frá 1600-1900 var yfirleitt 300-500 manns. Saga Vestmannaeyja og þróun fiskveiða og fiskverkunar verður ekki sundurskilin. Vélbátaöldin sem hófst í Eyjum 1906 olli atvinnubyltingu og íbúafjöldinn þrefaldaðist á 15-20 árum og var um 2000 manns þegar Vestmannaeyjar fengu kaupstaðarréttindi 1919. Þróunin hélt áfram, en heimskreppan sem hófst 1930 hafði mikil áhrif á samfélagið í Eyjum í heilan áratug. Eftir það fjölgaði íbúum á ný. Í árslok 1972 var íbúafjöldinn kominn í 5300 manns. 

Eldgosið á Heimaey 1973 og afleiðingar þess höfðu gríðarleg og viðvarandi áhrif á þróun byggðar í Eyjum. Að gosi loknu, sumarið 1973, hófst mikið uppbyggingarstarf, enda hafði þriðjungur af byggðinni, íbúðarhús og atvinnufyrirtæki farið undir hraun og gjall. Endurreisn byggðar, atvinnu- og mannlífs voru risavaxin verkefni sem tókst að framkvæma að miklu leyti á nokkrum árum með viðtækri samstöðu íbúanna, virkri aðstoð stjórnvalda og góðri aðstoð ýmissa aðila innanlands og utan. Sumt verður aldrei bætt, en bæjarbúar lærðu að aðlaga sig að gjörbreyttu umhverfi. Talið er að liðlega 3600 manns hafi flutt heim á ný að loknu eldgosi, en einnig bættust nýir íbúar í hópinn á næstu árum og áratugum. 

Íbúafjöldi í Eyjum er nú um 4300 manns, en atvinnuhættir hafa breyst mikið. Sjávarútvegur er áfram burðarásinn í atvinnulífinu, ásamt þjónustu við greinina, en samhliða bættum samgöngum á sjó við Eyjar með tilkomu Landeyjarhafnar 2010, hefur ferðaþjónusta vaxið stórum skrefum í Eyjum á síðustu árum. Betur má ef duga skal. 

Elís Jónson forseti bæjarstjórnar setti fund og fór yfir ágrip um aðdraganda þess að Vestmannaeyjabær hlaut kaupstaðarréttindi.

Skipan og störf nefndarinnar. 
Bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 5. september 2018, að skipa sérstaka nefnd vegna 100 ára afmælis kaupstaðarréttinda Vestmannaeyjabæjar. Í nefndina voru skipuð þau Arnar Sigurmundsson, Hrefna Jónsdóttir og Stefán Óskar Jónasson. Jafnframt var ákveðið að þeir Angantýr Einarsson, framkvæmda-stjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahússins, starfi með nefndinni. 

Nefndin kom saman til fyrsta fundar þann 10. september sl. og hefur haldið alls níu fundi frá því hún var skipuð. Meðal helstu verkefna hefur verið að móta tillögur um fyrirkomulag og viðburði í tengslum við afmælisárið. Sem hluta af þeim undirbúningi hefur nefndin fengið á fundi sína fjölda gesta úr ýmsum áttum samfélagsins, m.a. skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyjabæjar vegna aðkomu og þátttöku nemenda, rekstraraðila Eyjabíós vegna hugmynda um kvikmyndahátíð, fulltrúa Eyjasýnar ehf., vegna útgáfu afmælisrits, fulltrúa ET miðla (eyjar.net) vegna auglýsinga og umfjöllunar um viðburði á afmælisárinu, skólastjóra Tónlistarskólans vegna hugsanlegra stórtónleika á vegum bæjarins. Jafnframt hefur nefndin verið í sambandi við nokkra skipuleggjendur hátíða, umboðsmenn hljómsveita og fulltrúa á vegum hljóðkerfa og tæknibúnaðar, framkvæmdastjóra Kvikmyndasafns Íslands, hönnuði vegna gerð afmælismerkis bæjarins og fulltrúa Íslandspósts vegna gerð frímerkis í tilefni 100 afmælis Vestmannaeyjabæjar og fyrstu bæjarstjórnar Vestmannaeyja 14. febrúar 2019. 

Nefndin hefur sett saman eftirfarandi hugmyndir að fjölbreyttum viðburðum vegna afmælisársins þar sem reynt er að koma til móts við sem breiðastan hóp og mismunandi áhugasvið bæjarbúa. Hugmyndirnar samanstanda af 11 viðburðum sem dreifast nokkuð jafnt yfir árið. 

1. janúar 2019 
Sýning á verkum Jóhannesar Kjarvals sem eru í eigu Vestmannaeyjabæjar. Sýningin fer fram í Safnahúsinu og stendur yfir frá kl. 13.00- 17.00 á nýársdag. 

7. febrúar 2019 
Útgáfudagur Íslandspósts á frímerki í tilefni 100 ára afmælisins. Dagskrá kl. 17.30 í Safnahúsinu þar sem hönnuður frímerkisins kynnir það. Auk þess verða sýnd og fjallað um frímerki frá 1950 og síðar sem tengjast Vestmannaeyjum. Jafnframt verður kynnt sérstök afmælisútgáfa af merki Vestmannaeyja-bæjar. Sýningin mun standa yfir til og með 10. febrúar 2019. 

12.-19. febrúar 2019 
Sýning á myndlist nemenda við Grunnskóla Vestmannaeyja úr sögu Vestmannaeyja. Sýningin verður í Safnahúsinu á opnunartíma hússins. 

14. febrúar 2019 
Opinn hátíðarfundur í bæjarstjórn kl. 18:00. Fundurinn fer fram í aðalsal Kviku. Hátíðarsamþykktir. Boðið verður upp á kaffiveitingar að loknum fundi. Annáll og liðlega 100 ljósmyndir tengdar atburðum úr 100 ára sögu bæjarfélagsins og atburðum sem tengjast þróun byggðar í Eyjum sýndar á breiðtjaldi. 

15. febrúar 2019 
Bæjarstjórnarfundur unga fólksins. Í samstarfi við Grunnskóla Vestmannaeyja munu nemendur í 9. og 10. bekkjum skólans efna til bæjarstjórnarfundar í aðalsal Kviku. Skipulag fundarins verður með sama hætti og hefðbundinn bæjarstjórnarfundur, en unga fólkið mun leggja fram tillögur, bókanir eða áskoranir til bæjarstjórnar. Gert er ráð fyrir að fundurinn fari fram milli kl. 12:00 og 13:30. Boðið upp á veitingar að loknum fundi. 

17. febrúar 2019 
Opið málþing um Vestmannaeyjar í 100 ár ? tækifæri og ógnanir. Fengnir verða fyrirlesarar úr röðum fræðimanna, frumkvöðla, sérfræðinga eða sérstakra áhugamanna um fortíð, nútíð og framtíð Vestmannaeyja og samfélagsmála í víðara samhengi. 

Apríl og október 2019 
Kvikmyndahátið á vegum bæjarfélagsins í Eyjabíó. Sýndar verða kvikmyndir, heimildamyndir og myndbrot sem tengjast Vestmannaeyjum í nær heila öld. 

2.-3. júlí 2019 
Úgáfudagur og dreifing afmælisrits í tilefni 100 ára afmælis Vestmannaeyjabæjar. Stærð afmælisrits verður 100 bls. sem fer í aldreifingu innanbæjar. Upplag rúmlega 2000 eintök. Í ritinu verða meðal efnis ávörp, viðtöl, 100 ára annáll með ljósmyndum sem tengjast atburðum þar sem stiklað er á stóru í sögu Vestmannaeyjabæjar, þróun íbúafjölda, atvinnulífs, menningar o.fl., auk umfjöllunar um bæjarstjórn í og starfsemi bæjarstofnana. Fjögurra manna ritnefnd hefur verið mynduð af fulltrúum afmælisnefndar og Eyjasýnar ehf. Útgáfan er samstarfsverkefni og hefur verið gengið frá samkomulagi um kostnaðar-skiptingu. 

5. júlí 2019 (föstudagur í goslokahelgi) 
100 ára hátíðardagskrá á Stakkagerðistúni. Stuttar hátíðarræður, tónlist, barnadagskrá o.fl. Unnið í samráði við Goslokanefnd 2019. 
Móttaka bæjarstjórnar síðdegis í Eldheimum fyrir boðsgesti. Forseti Íslands, forsætisráðherra, o.fl. ráðherrar, alþingismenn Suðurkjördæmis, núverandi og fyrrverandi bæjarfulltrúar, bæjarstjórar og nokkrir embættismenn Vestmannaeyjabæjar, ásamt mökum. 
Stórtónleikar í boði Vestmannaeyjabæjar kl. 20:00 – 23:00 í Íþróttamiðstöðinni (útfært nánar síðar). 

2.-3. nóvember 2019 
Safnahelgin í Eyjum. Um er að ræða lok 100 ára afmælisársins (útfært nánar síðar). 
Kynning á framkvæmdum Ráðhússins við Stakkagerðistún og gjörbreyttu hlutverki þess að loknum áfangaskiptum framkvæmdum.”

Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar 2018.

Í framhaldi af þessari samantekt var lagt til við bæjarstjórn að ofangreind tillaga að viðburðum verði samþykkt og að gert verði ráð fyrir 22,5 m.kr. fjárveitingu vegna 100 ára afmælisins í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2019 til þess að undirbúa, hrinda í framkvæmd og standa undir útgjöldum vegna umræddra viðburða og annarra sem kunna að bætast við á afmælisárinu 2019.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.