Vestmannaeyjabær býður upp á akstursþjónustu fyrir fatlaða á virkum dögum milli klukkan 7:30 og 17:30 og hefur til þjónustunnar sérútbúinn bíl. Markmið þjónustunnar er að gera þeim sem eru andlega og líkamlega fatlaðir og þurfa nauðsynlega vegna fötlunar sinna á akstursþjónustu að halda til að geta stundað vinnu og nám eða sótt þjónustu á sérhæfðar þjónustustofnanir.
Heyrst hefur óánægja með að ekki sé boðið upp á ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk sem þurfa á henni á halda á kvöldin, um helgar og á rauðum dögum.

Til að mæta þessum hópi voru lagðar til eftirfarandi leiðir á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs á mánudaginn.

  1. Fyrir fatlað fólk býður Vestmannaeyjabær upp á niðurgreiðslu á kostnaði vegna leigubifreiðar. Niðurgreiðslan er bundin við 900 kr ferðin og takmarkast við 10 ferðir á mánuði. Niðurgreiðslan miðast við ferðir á þeim tíma sem ekki er veitt akstursþjónusta á vegum sveitarfélagsins.
  2. Varðandi fólk í hjólastól eða sem vegna fötlunar geta ekki nýtt sér leigubílaþjónustu heldur eru í þörf á sérútbúnum bíl þarf að panta slíka þjónustu með minnst 2 daga fyrirvara. Ef sameiginlegt mat notenda og þjónustuaðila er á þörfinni er bílstjóri fenginn til verksins og útkall greitt. Ferðafjöldinn miðast við 10 ferðir að hámarki á mánuði og gjald notenda verður 300 kr. ferðin.
  3. Í vissum tilfellum verður hægt að fá lánað sérútbúin ferðaþjónustubíl til fatlaðs fólks í hjólastól eða sem vegna fötlunar eru í þörf á sérútbúnum bíl. Leggja verður fram pöntun tímanlega. Bílstjóri verður að hafa ökuréttindi til að aka umrædda bifreið og ber ábyrgð á henni skv. umferðarlögum. Gjald fyrir láni á bifreiðinni verður 800 kr og miðast við lán í 4 klst.
  4. Ósk um frávik frá þessum reglum er hægt að leggja fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð ásamt rökstuðingi.
  5. Mælt er með að veita þessa viðbótarþjónustu í eitt ár og meta áhrif hennar og áframhald eftir þann tíma.

Ráðið samþykkti þessa tillögu með fyrirvara um samþykki um aukna fjárveitingu og vísar henni til fjárhagsáætlunargerðar 2019. Framkvæmdastjóra sviðs var því falið að útfæra verkferla til að fylgja þessum reglum eftir.