Fyrirsögnin er úr ljóði eftir Hákon Aðalsteinsson, mér finnst það eiga vel við því framundan er aðventan, ljósin lýsa upp skammdegið og fólk fer að setja sig í stellingar fyrir jólahátíðina. Í Vestmannaeyjum hefst dagskrá aðventunnar með Líknarkaffinu í dag og þegarkveikt verður á jólatrénu á Stakkó á morgun.

Heimaey- vinnu og hæfingarstöð heldur sinn árlega jólamarkað og opna hús föstudaginn 30. nóvember. Hægt er að kaupa kerti, handverk og jafnvel eitthvað fleira af þeim. Á laugardaginn er jólamarkaður í Höllinni. Þar munu listamenn, handverksfólk og fyrirtæki vera með verk sín og þjónustu til sölu. Einnig verður kaffihús þar sem verður hægt að fá kaffi , kakó og jólalegar veitingar

Jólin koma og þeim fylgja jólahlaðborðin. Núna um helgina verður jólahlaðborð Gott í Alþýðuhúsinu. Á föstudaginn spilar Ragnheiður Gröndal ljúfa tóna og á laugardaginn er það Valdimar. Það er fólkið á Gott sem sér um að matreiða ofan í gesti, getur ekki klikkað!

Sýningin Myndlist á korti opnar í Einarsstofu hinn 1. desember kl.14.00. Um er að ræða samsýningu þeirra Steinunnar Einarsdóttur, Guðlaugar Ólafsdóttur og Brynhildar Friðriksdóttur. Sýningin samanstendur af kortum af ýmsum stærðum og gerðum, bæði jólakortum en einnig tækifæriskortum. Sýningin stendur út desembermánuð.

Bræðurnir Friðrik og Jón Jónssynir ætla heimsækja Eyjarnar Í desember.  Í nokkur ár hafa þeir bræður haldið saman tónleika í aðdraganda jóla og verður engin breyting á því í ár. Fimmtudaginn 13. desember ætla þeir að halda tvenna tónleika í Alþýðuhúsinu, annars vegar fjölskyldutónleika kl.18:00 þar sem mömmur, pabbar, frænkur, frændur, ömmur, afar og auðvitað allir krakkar eru velkomnir. Kl.21:00 verða svo tónleikar fyrir fullorðna fólkið eingöngu.

Jólahlaðborð Einsa Kalda og jólastjörnur Hallarinnar verða laugardaginn 15. desember í Höllinni. Þar stíga á svið okkar helstu söngvarar Eyjanna ásamt fleiri gestum. Þá er farið að styttast í jólin og góð upphitum að njóta frábærra rétta sem Einar Björn og hans fólk reiðir fram.  Sem sagt, stórglæsilegir jólatónleikar og jólahlaðborð sem löngu er orðið margrómað.

Það er fátt jólalegra en að fara á jólatónleika Kórs Landakirkju sem eru þriðjudaginn 18.desember. Þar heldur Kitty Kováks á sprotanum og leikur undir. Efnisskráin er að venju fjölbreytt, allt frá hefðbundnum jólalögum yfir í klassísk verk.

Stundum er talað um jólin sem hátíð barnanna, enda er desember tilvalin tími til að hlúa vel að börnum og gera eitthvað skemmtilegt með þeim, stærsta og dýrasta jólagjöfin verður ekki það sem situr eftir hjá neinum, heldur tíminn saman og samverustundirnar.
Fram til 19. desember geta börn frá leikskólaaldri og upp í 5. bekk Grunnskóla gengið í Jólasveinaklúbb Bókasafns Vestmannaeyja. Þátttakendur velja sér jólabók/jólabækur á Bókasafninu og lesa að minnsta kosti 10 sinnum, í að lágmarki 10 mínútur í hvert sinn. Fyrir yngri börnin mega foreldrarnir lesa bækurnar, tilvalið að eiga notalega stund saman yfir skemmtielgum bókum.

Þann 21. desember kl. 20:30 ætla Elísabet Guðnadóttir, Guðný Emilíana Tórshamar ásamt húsbandi, að bjóða til hugljúfra jólatónleika í Lögin eru vel valin af þeim sjálfum, á íslensku og ensku, ný og gömul.  Allir eru hjartanlega velkomnir að koma og njóta fallegra tóna í notalegu umhverfi og er frítt inn.

Það er nóg annað að gera á aðventunni hér í bæ og margt í boði þegar kemur að því að eiga notalega stund yfir mat og drykk. Matsölustaðir bæjarins eru með ýmislegt annað í boði en venjulega yfir aðventuna og sama má segja með kaffihúsin og ölstofuna.

Allir fá þá eitthvað fallegt eins og segir í laginu, jólagjafirnar eru á sínum stað og fylgir aðvetunni að kaupa þær. Ég minni því á að versla í heimabyggð, það skiptir máli.

Nýtt tölublað af Eyjafréttum kom út í gær og þar hugum við að aðventunni og ýmsu sem henni fylgir. Ekki láta það framhjá þér fara. Hérna að ofan hef ég þulið að hluta til það sem um er að vera í Vestmannaeyjum næstu vikurnar og það ættu allir að geta gert sér glaðan dag yfir aðventuna. Enn fyrst og fremst, hugið vel að fólkinu sem er í krignum ykkur og njótið þess að vera saman.

Sara Sjöfn Grettisdóttir
Ritstjóri Eyjafrétta