Starfshópur sem hafði það hlutverk að móta tillögur um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna hefur skilað skýrslu til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Í skýrslunni eru gerðar tillögur um breytingar á fyrirkomulagi innanlandsflugs og rekstri flugvalla og að innanlandsflug verði hagkvæmur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Til að jafna aðgengi landsmanna að þeirri þjónustu sem aðeins er í boði SV-horni landsins og til að gera sem flestum kleift að taka þátt í samfélaginu leggur starfshópurinn eftirfarandi til:
„Farmiðar íbúa með lögheimili á tilgreindum svæðum á landsbyggðinni verði niðurgreiddir. Skilgreint verði svæði landsins þar sem íbúar sem ferðast í einkaerindum njóta 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum til og frá svæðinu, þó að hámarki fjórar ferðir (8 leggir) á hvern einstakling á meðan reynsla er að komast á kerfið. Lagt er til að við ákvörðun svæðisins verði miðað við 200 – 300 km. akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu eftir aðstæðum á hverjum stað.”
Aðgerðinni er ætlað að fjölga farþegum í innanlandsflugi og bæta þannig rekstrargrundvöll flugsins. „Útfærð verði niður greiðsla á flugmiðum fyrir íbúa með lögheimili á lands- byggðinni í samræmi við gildandi ríkisstyrkjareglur. Nýtt fyrirkomulag taki gildi árið 2020,” segir í skýrslunni.

„Almennt má segja að þeim mun háðari sem þjónustuveitandi er viðskiptavininum um tekjur sínar og aðomu, þeim mun betri þjónustu reynir hann að veita í von um frekari viðskipti. Ef hámarksfargjaldaleiðin er farin kemur hluti af tekjunum frá ríkinu, ekki frá farþegunum, og þeim mun hærra sem þetta hlutfall er þeim mun óháðari verður flugrekandinn farþegum sínum og þeirra þörfum t.d. um ferðatíma. Þegar svo er komið að um eða innan við einn farþegi er að meðaltali í ferð kann að vera nauðsynlegt að tengja tekju- og hagnaðarvon flugrekandans betur við þarfir og fjölda farþega s.s. með niðurgreiðslu fargjalda. Hámarks fargjaldaleiðin styður við uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs, þar með talið í ferðaþjónustu, á landsbyggðinni þar sem fyrirtæki og ferðamenn njóta góðs af þessari leið til jafns við heimamenn.

  Að niðurgreiða eingöngu fargjöld heimamanna í persónulegum erindum er hins vegar mun markvissari nýting fjármuna í þágu þeirra, þar sem áætlað hefur verið að aðeins um þriðjungur ferða ætti rétt á niðurgreiðslu samkvæmt því. Ekkert kemur í veg fyrir að þessum tveim leiðum sé blandað saman. Hámarksfargjöld ákveðin og fargjöld niðurgreidd til íbúa. Þannig gætu íbúar þar sem nú þegar er flogið skv. samningi við ríkið einnig notið niðurgreiðslu fargjalda.”

Lesa má skýrsluna í heild sinni hér.