Mikið hefur verið fjallað um neyslu, óþarfa og streytu undanfarið og er þá sérstaklega horft til hátíðanna sem framundan eru. Umhverfis Suðurland hvetur til samveru og notalegra stunda á aðventunni og leggur hér fram nokkrar hugmyndir að vistvænum föndurstundum sem hægt er að skipuleggja með fjölskyldu og vinum eða stærri hópum. Gaman er að segja frá því að í Gömlubúð á Höfn í Hornafirði er til dæmis boðið til jólastundar og kortagerðar með listamanni úr heimabyggð. Í kortagerðina verður notast við hráefni sem fallið hefur til af listastofu, heimili eða náttúru.

Aðrar hugmyndir að jólaföndri fyrir alla eru til dæmis:

Pokasaumur. Pokastöðvar eru starfrækar víðsvegar um landið og lítið mál að stofna slíka. Pokastöðvarnar sauma fjölnota taupoka úr gömlum stuttermabolum eða öðru efni og gefa samfélaginu til notkunnar í verslanir. Allir geta tekið poka, notað og skilað svo aftur út í samfélagið. Fjölnota taupokar er einnig hægt að nýta í vistvænar gjafaumbúðir um jólin.

Kertagerð úr afgangs vaxi er skemmtileg afþreying en einnig er hægt að gefa heimatilbúnu kertin í jólagjafir, ef til vill eiga fyrirtæki á svæðinu kertaafganga sem hægt væri að nýta. Steypa má kerti í krukkur eða annað sem til er á heimilinu.

Jólakransagerð úr könglum og gömlu eða heimatilbúnu skrauti er fallegt að hengja á útidyrahurðina. Karamellukransarnir eru alveg dottnir úr tísku með öllum sínum umbúðum.

Heimatilbúið jólaskraut má búa til úr ýmsum hlutum sem finnast á heimilinu. Þurrkaðar epla- og appelsínusneiðar príða sér vel á jólatrjám og krönsum og poppkorn þrædd á þráð minna á snjókorn. Ilmurinn af negulskreyttum appelsínum minnir marga á jólinn og er lítil fyrirhöfn.

Gaman væri að sem flestir leyfi sköpunarkröftum sínum að njóta sín á aðventunni og skipuleggi viðburði fyrir fleiri að njóta með sér. Hafir þú eða þinn félagsskapur áhuga á að skipuleggja vistvænan viðburð hafið endilega samband við Umhverfis Suðurland og munið eftir #umhverfissudurland