The Brothers Brewery er ört stækkandi fyrirtæki í Vestmannaeyjum enda hafa bjórarnir þeirra hlotið miklar vinsældir og haf þeir vart undan að framleiða. Núverandi húsnæði þeirra í Baldurshaga er því löngu sprungið undan þeim.

Skammt er síðan þeir sóttust eftir byggingaleyfi á Vigtartorgi en fengu ekki. Nú hafa þeir þó fundið sér húsnæði sem hentar framleiðslunni og ölstofunni. „Nú er komið að því að uppljóstra leyndarmálinu sem allir vita um. Í gær skrifuðum við undir kaupsamning að Bárustíg 7. Fáum við nýju eignina afhenta 1.febrúar og munum við þá hefjast handa við breytingar á eigninni. Í framhaldinu flytjum við svo framleiðsluna og ölstofuna yfir götuna á nýjan stað. Við viljum þakka leigusölum okkar í Baldurshaga og nágrönnum fyrir gott samstarf,” segir í tilkynningu frá þeim bræðrum.

Bárustígur 7 hýsir í dag bakaríið og kaffihúsið Stofuna Bakhús sem þau hjónin Arnór Hermannsson og Helga Jónsdóttir reka. En þau tilkynntu í gær að þau væru að hætta rekstrinum eftir 22 ár. „Kæru viðskiptavinir Stofunnar/ Arnórs bakara. Það er komið að tímamótum í lífi Arnórs og Helgu. Eftir 22 ár í bakstri og veisluþjónustu höfum við ákveðið að hætta rekstri. Við lokum laugardaginn 22 desember n.k. klukkan 16:00. Þökkum starfsfólki og viðskiptamönnum liðinna ára samfylgdina,” segir í tilkynningu frá þeim.