Vestmannaeyjabær hefur nú opnað bókhald bæjarins með aðgengilegum og myndrænum hætti. Þar gefst kostur á að nálgast upplýsingar um tekjur og gjöld bæjarsjóðs Vestmannaeyja, hvernig fjármagn er aflað og ráðstafað. Um er að ræða veflausn sem býður upp á myndræna framsetningu í súluritum, kökum og hlutfallsmyndum.

Lausnin er unnin í samvinnu við fyrirtækið Wise sem annast þjónustu við rekstur bókhaldskerfi Vestmannaeyjabæjar. Veflausnin er hluti af Navision og notast við vöruhús gagna og Microsoft Power BI. Lausnin sækir gögn í bókhald sveitarfélagsins sem uppfærast jafn óðum.

Þegar komið er inn á síðuna er hægt að velja fjóra yfirflokka:

  1. Hvert fara peningarnir? – allir flokkar.
  2. Hvaðan koma peningarnir? þar sem hægt er sjá skiptingu skatttekna.
  3. Hvert fara peningarnir? – greining þar sem hægt er sjá hverja einingu og skoða tekjur, vörukaup, þjónustukaup og hverjir eru helstu lánadrottnar.
  4. Hvert fara peningarnir? – lánadrottnar en þar má sjá alla lánardrottna og heildarfjárhæðir viðskipta.

Með þessu vill Vestmannaeyjabær stuðla að bættu upplýsingaflæði um öflun og ráðstöfun fjármagns bæjarfélagsins og bæta gegnsæi og þjónustu við íbúa.

Hægt er að nálgast opna bókhaldið með því að smella á eftirfarandi hlekk: http://vestmannaeyjar.is/is/page/opid-bokhald

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri.