Árið 2019 hefst með hefðbundum hætti, fullkominni óvissu í loðnuveiðum

Samkvæmt tölum frá Byggðastofnun var lækkun um milljarð eða 20% á atvinnutekjum í fiskvinnslu í Vestmannaeyjum á árunum 2016-2017. Veiðigjöldin kalla á aukna hagræðingu og störfum í landi fer fækkandi. Íslandsbanki gaf í lok árs út skýrslu um sjávarútveginn á Íslandi og á þeirri kynningu var því kastað fram hvort 2018 yrði vonbrigði í sjávarútvegi, blaðamaður hafði samband við framkvæmdastjóra Ísfélagsins og Vinnslustöðvarinnar til að kanna stöðuna og framhaldið.

Stefán Friðriksson, framkvæmdarstjóri Ísfélagsins

Reksturinn árið 2018 er ugglaust vonbrigði hjá mörgum
„Launagreiðslur Ísfélagsins í landdeildum félagsins í Vestmannaeyjum hafa eitthvað lækkað milli ára og ástæðan er fyrst og fremst vegna þess að vinnsla á uppsjávarfiski hefur minnkað í magni en breytingin er ekki stórvægileg,“ sagði Stefán Friðriksson framkvæmdastjóri Ísfélagsins, aðspurður út í lækkun á atvinnutekjum í fiskvinnslu á árunum 2016 til 2017. Hann sagði jafnframt að erfitt væri að svara hvort heildarlaunakostnaður í fiskvinnslu muni halda áfram lækka, „en það gefur auga leið að hjá Ísfélaginu fer það fyrst og fremst eftir umsvifum félagins í uppsjávarvinnslunni.“

Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka hefur starfsmannafjöldi  helmingast í fiskvinnslu en afköst orðið helmingi meiri. Einnig kom fram að fjöldi starfa í landvinnu hafi minnkað og þá sérstaklega kvennastörf á landsbyggðinni. Eru þetta staðreyndir sem Ísfélagið getur speglað sig í? Það má gera ráð fyrir því að með nýrri tækni sem sagt eins og vatnsskurðarvélum, fækki störfum í snyrtingu eða þá að afköst aukist með sama starfsmannafjölda. Á undanförnum árum hefur fjöldi kvenna í fiskvinnslu verið svipaður í fiskvinnslu Ísfélagsins.

Á kynningu Íslandsbanka var því kastað fram hvort 2018 yrði vonbrigði í sjávarútvegi. Er það staðreynd? Reksturinn árið 2018 er ugglaust vonbrigði hjá mörgum meðal annars vegna hárra veiðigjalda og hækkandi olíukostnaðar.

Nú er árið senn á enda, hvernig sjáið þið fyrir ykkur næsta ár?  Um það er erfitt að spá en almennt má segja að rekstrarafkoma Ísfélagsins fari eftir því hvernig til tekst á loðnuvertíðinni. Eins og staðan er núna er algjör óvissa um hvort leyfðar verða veiðar á loðnu í vetur og þar af leiðandi útilokað að geta sér til um hvernig afkoma félagsins verður.

 

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdarstjóri VSV

Veiðigjöldin munu grafa undan styrk íslensks sjávarútvegs til framtíðar
„Krónan lækkaði talsvert á milli áranna 2016 og 2017 sem skýrir lækkunina,“ sagði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar aðspurður út í lækkun á atvinnutekjum í fiskvinnslu á árunum 2016 til 2017. „Við höfum líka séð verðlækkun eins og í karfa, ufsa og síld á tímabilinu í erlendri mynt.  Við höfum séð krónuna veikjast undanfarið sem hjálpar til og eykur möguleika sjávarútvegs sem og annarra útflutningsgreina eins og ferðaþjónustu.“

Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka hefur starfsmannafjöldi helmingast í fiskvinnslu en afköst orðið helmingi meiri. Einnig kom fram að fjöldi starfa í landvinnu hafi minnkað og þá sérstaklega kvennastörf á landsbyggðinni. Eru þetta staðreyndir sem Vinnslustöðin getur speglað sig í? Auðvitað kalla veiðigjöld á hagræðingu sem leiðir til fækkunar starfa.  Þau munu líka grafa undan styrk íslensks sjávarútvegs til framtíðar og þar með þeim byggðum þar sem sjávarútvegur er mikilvægur.  Á endanum mun þjóðin svo tapa á öllu saman.  Við höfum séð fækkun starfa samhliða tæknivæðingu félagsins.  En tæknivæðing kallar á annars konar starfsfólk, þ.e.a.s. fólk með tæknimenntun og þekkingu á umsjón þeirra.  Við þurfum að sjá konur koma meira inn í tæknistörfin.  Möguleikar þeirra eru ekki lakari en karla.

Á kynningu Íslandsbanka var því kastað fram hvort 2018 yrði vonbrigði í sjávarútvegi. Er það staðreynd? Já, það er rétt.  Sérstaklega hjá þeim sem stunda botnfiskvinnslu.  Árið 2018 verður ekki gott hjá þeim. Hjá okkur má ekki gera lítið úr samdrætti á humarveiðum sem skapar færri störf og minni tekjur.

Nú er árið senn á enda, hvernig sjáið þið fyrir ykkur næsta ár?  Árið 2019 hefst með hefðbundum hætti, fullkominni óvissu í loðnuveiðum.  Hjá okkur í Vinnslustöðinni sjáum við fyrir endann á framkvæmdum og við munum taka okkur hlé á næstunni.  Nú þurfum við að skipuleggja rekstur félagsins í takt við breytingar sem hafa orðið í tengslum við tæknivæðinguna.