227. fundur framkvæmda- og hafnaráðs fór fram í gær. Þar voru sorphirða og sorpeyðing meðal umræðuefna.

Geir Zöega stjórnarformaður Kubbs ehf mætti á fundinn og fór yfir stöðuna í sorphirðu og sorpeyðingu. Fram kom að röskun hefur verið á sorphirðu í desember en áætlanir gera ráð fyrir að regla verði komin á sorphirðu í vikunni 13.-18. janúar.
Ráðið áréttaði mikilvægi þess að þjónusta sem þessi sé í lagi á öllum tímum og fól framkvæmdastjóra að hafa eftirlit með og fylgja því eftir að unnið sé í samræmi við samning.

Þá lágu fyrir drög að tillögu að matsáætlun vegna umhverfismats sorpbrennslu en áætlað er að leggja fram tillöguna nú í janúar. Þegar tillagan hefur verið afgreidd þarf að vinna frummatsskýrslu sem fer til auglýsingar.
Ráðið lýsir yfir miklum vonbrigðum með að tafir hafi orðið á vinnu við tillöguna. Ráðið leggur áherslu á að hraða vinnu við frummatsskýrsluna og óskar eftir kynningu frá ráðgjafa á næsta fundi ráðsins.
Ljóst er að vinna við mat á umhverfisáhrifum sorpbrennslu er mjög tímafrek og mun tefja þær áætlanir sem Vestmannaeyjabær hafði um byggingu sorporkustöðvar.

Hér má lesa fundargerðina í heild sinni.