Hlauparinn Hlyn­ur Andrés­son setti fjögur Íslands­met á síðasta ári. Núna hefur hann lokið námi í Banda­ríkj­un­um og ætlar að einbeita sér enn meira af hlaupinu.

„Ég kláraði meist­ara­nám í líf­fræði núna í byrj­un ág­úst og þurfti þá að ákveða hvort ég myndi fara beint í doktors­nám og gera hlaup­in að áhuga­máli, eða gefa bara allt í hlaup­in og reyna að kom­ast á at­vinnu­manns­stigið. Síðasta sum­ar þurfti ég að fórna at­lögu að lág­marki fyr­ir EM í Berlín til að klára námið í Banda­ríkj­un­um og það þótti mér mjög leiðin­legt. Í haust fannst mér ég eiga skilið að taka mér frí frá námi og reyna að ná sem mestu út úr mér sem hlaup­ara. Ég hef verið í sam­bandi við Hon­ore Hoedt, sem þjálfaði Anítu Hinriks­dótt­ur í Hollandi, frá því við hitt­umst á EM í Belgrað 2017. Hann hafði mik­inn áhuga á að þjálfa mig og hafði trú á því að ég hefði það sem þyrfti til að kom­ast á hæsta stigið í íþrótt­inni,“ sagði Hlynur í samtali við Morgunblaðið.

Ísfé­lagið, Vinnslu­stöðin og fleiri veita styrki
„Auðvitað er svo­lítið erfitt fjár­hags­lega að elta svona draum, en ég hef verið frem­ur hepp­inn með styrki hingað til og von­ast eft­ir að geta unnið aðeins sam­hliða æf­ing­um. Ísfé­lagið, Vinnslu­stöðin, Eins og fæt­ur toga og ÍR hafa stutt við bakið á mér og ég þakka fyr­ir það. Til þess að geta keppt við at­vinnu­menn í hæsta gæðaflokki er eig­in­lega ekki hægt að vinna fulla vinnu. Maður verður eig­ini­lega að eyða öll­um sín­um tíma í æf­ing­arn­ar og jafna sig þess á milli. Þess­ari ákvörðun hef ég staðið frammi fyr­ir eft­ir að ég lauk námi. Hvort ég vilji í raun fórna svo miklu fyr­ir íþrótt­irn­ar sem er ekki sjálf­gefið. Ég vona að þetta verði þess virði,“ sagði Hlynur.