„Árið 2018 var bæði viðburðaríkur og áhugaverður kafli í sögu Vinnslustöðvarinnar, sannkölluð tímamót að ýmsu leyti. Jafnframt verður að segjast að óvissa ríkir um þætti sem skipta okkur miklu máli til skemmri eða lengri tíma og afkoma félagsins hefur versnað,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson – Binni, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, um stöðu og horfur fyrirtækisins og sjávarútvegsins um áramót, er greint frá á heimasíðu VSV.

„Í fyrsta lagi fengum við fengum Breka VE til landsins, fyrstu nýsmíði skips fyrir félagið í sögu þess. Nýi togarinn reynist vel og stenst væntingar okkar og vonir.

Í öðru lagi tókum við frystigeymsluna, uppsjávarvinnsluna og mjölgeymsluna í fulla notkun. Þar með er lokið miklu fjárfestingar- og uppbyggingarskeiði innviða í félaginu.

Í þriðja lagi varð mikil og ánægjuleg breyting í hluthafahópi Vinnslustöðvarinnar þegar FISK Seafood á Sauðárkróki keypti þriðjungshlut af Brimi á haustdögum.  Það er gott að skynja áhuga FISK á að efla og styrkja Vinnslustöðina og sannarlega ánægjuleg breyting að upplifa slík viðhorf nýrra meðeigenda!

Í fjórða lagi héldum við áfram sókn í markaðs- og sölumálum erlendis. Í september 2017 tilkynntum við að Vinnslustöðin væri orðin meðeigandi í Okada Suisan í Japan, rótgrónu fjölskyldufyrirtæki sem hefur nær 50% markaðshlutdeild loðnuafurða þar í landi. Á nýliðnu ári áttuðum við okkur enn betur á því hve miklu þetta skref getur skilað okkur og reksturinn í Japan lofar góðu. Í ljósi reynslunnar hljótum við því að horfa til þess hvort og þá hvernig mögulegt sé að skjóta rótum víðar á markaðssvæðum félagsins til að gera verðmætar útflutningsvörur enn verðmætari, í þágu Vinnslustöðvarinnar og íslensks þjóðarbús.“

Há veiðigjöld, óvissa um humar og loðnu
Binni liggur hvergi á þeirri skoðun sinni að sjávarútvegsfyrirtækin séu skattlögð langt umfram það sem talist geti eðlilegt og sæmilegt. Gjaldheimtugleði hins opinbera hamli beinlínis vexti og viðgangi í sjávarútvegi. Engin rök séu fyrir því að binda þeirri atvinnugrein mun þyngri klyfjar en öllum öðrum atvinnurekstri í landinu.

„Afkoma sjávarfyrirtækja hefur versnað og sú staða birtist líka hjá Vinnslustöðinni, þrátt fyrir við höfum fjárfest gríðarlega í innviðum til að auka framleiðni og hagræða í rekstri. Ástæðurnar eru auðvitað óeðlilega hátt gengi íslenskrar krónu og mikill innlendur kostnaður. Nýir verkalýðsforingjar láta sér samt fátt um finnast og telja sjálfsagt mál að hækka kaup á vinnumarkaði um tugi prósenta á sama tíma og aðvörunarbjöllur klingja til dæmis í sjávarútvegi og ferðaþjónustufyrirtæki mæta samdrætti hjá sér með því að sameinast öðrum í greininni eða fækka hreinlega fólki.

Óvissa ríkir um loðnuveiðar og það er auðvitað alvarlegt fyrir Vinnslustöðina. Óvissa ríkir líka um humarveiðar í ár. Nýliðun skortir í humarstofninum og slíkt er auðvitað grafalvarlegt, enda erum við með 17% humarkvótans

Við okkur í Vinnslustöðinni blasir ekki annað en að hagræða enn frekar og draga úr kostnaði í rekstrinum, hvenær og hvernig svo sem það kann að birtast.

Og talandi um veiðigjöldin. Nú hljótum við í sjávarútveginum og aðrir landsmenn að ganga eftir skýringum á því að Hafrannsóknastofnun er fréttaefni í fyrstu viku nýs árs vegna þess að gríðarlegt gap blasir þar við milli tekna og útgjalda. Talað er um að draga þurfi saman í rekstri, leggja skipi, fækka sjóferðum annarra skipa og segja upp starfsfólki til sjós og lands. Þetta kemur upp á yfirborðið einum mánuði eftir að Alþingi samþykkti fjárlög ríkisins fyrir árið 2019.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að svona nokkuð spyrst fyrst út núna? Og hvernig í ósköpunum má það vera að ástandið sé með þessum hætti þegar ríkið hafði líklega meiri beinar tekjur af sjávarútvegi á árinu 2018 en nokkru sinni fyrr, veiðigjöldin ein og sér skiluðu ríkissjóði tvöfalt meiru en kostar að reka Hafrannsóknastofnun og tekjur af veiðigjöldum eru að hluta „eyrnamerktar“ hafrannsóknum?“

Kristján Þór veit og skilur …
Hafrannsóknastofnun hefur með sérstökum stuðningi ríkisstjórnarinnar haldið úti skipi til loðnurannsókna í í vetur, umfram það sem áður tíðkaðist. Binni í Vinnslustöðinni lýsir ánægju með það.

„Já, þrátt fyrir að við höfum ekki fengið fréttir af loðnunni sem gefa upphafskvóta er viðleitnin lofsverð. Við verðum að átta okkur betur á loðnunni og breyttri hegðan hennar. Það gerist ekki nema með því að leggja meira í hafrannsóknir og styrkja samstarf og samskipti vísindamanna, sjávarútvegsfyrirtækja og stjórnvalda.

Ég nefni í því sambandi til sögunnar Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. Hann hitti ég og talaði við í fyrsta sinn á nýliðnu ári og verð að segja að nú vermir ráðherrastólinn maður sem sjálfur hefur augljóslega þekkingu á sjávarútvegi. Alls ekki ber að skilja sem svo að sjávarútvegsráðherra á hverjum tíma skuli vera sammála útgerðarmönnum í einu og öllu, heldur að hann skilji tungutakið í atvinnugreininni og sé einfaldlega viðræðuhæfur. Það er Kristján Þór svo sannarlega og aukin áhersla á loðnuleit hefði ekki átt sér stað án stuðnings hans og frumkvæðis. Það leyfi ég mér að fullyrða.

Öðrum Eyfirðingi kynntist ég líka á nýliðnu ári, Ólafi Halldórssyni fiskifræðingi. Samtöl við hann dýpkuðu verulega skilning minn á ýmsu í lífríki hafsins og sönnuðu fyrir mér nauðsyn þess að vísindamenn og sjávarútvegsfyrirtækin störfuðu náið saman. Ólafur var árum saman á Hafrannsóknastofnun sem sérfræðingur í uppsjávarfiskum og starfaði með fiskifræðingunum Jakobi Jakobssyni, Hjálmari Vilhjálmssyni, Gunnari Stefánssyni tölfræðingi og fleirum.

Það var nú aldeilis ekki svo að útvegsmenn og sérfræðingar Hafró á þessum tíma væru alltaf sammála og oft hvessti í samskiptum þeirra. Sérfræðingarnir litu hins vegar svo á að vísindi þeirra og rannsóknir væru í þágu samfélagsins og þjóðarbúsins. Þeir voru líka í nánara sambandi við sjávarútvegsfyrirtækin en síðar varð, það hef ég alla vega sterklega á tilfinningunni.

Mér hefur fundist í seinni tíð að fiskifræðingar telji á stundum að vísindi þeirra séu vísindanna vegna og beinlínis varasamt sé fyrir þá að eiga mikil samskipti við þá sem starfa í sjávarútvegi. Vonandi verður breyting þar á og ég treysti ekki síst á áhrif Kristjáns Þórs Júlíssonar í þeim efnum. Himinn og haf er svo á milli orða og gjörða hans sem sjávarútvegsráðherra annars vegar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegsráðherra í fyrri ríkisstjórn, hins vegar. Hún hafði ekki einu sinni skilning á samhengi einföldustu hluta í sjávarútvegi, til dæmis því að stjórnvöld gætu hugsanlega aukið tekjur ríkissjóðs um 6-10 milljarða króna, beint og óbeint, með því að veita 30-40 milljónir króna til loðnuleitar. Útvegsmenn tóku þá af skarið og lögðu bæði skip og fjármuni í verkefnið. Þá fannst loðna sem skapaði þjóðarbúinu tekjur upp á áðurnefnda 6-10 milljarða!“

Valdníðsla Seðlabankans
Vinnslustöðin kom við sögu í umræðu í samfélaginu í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands ógilti um miðjan nóvember ákvörðun Seðlabanka Íslands um að sekta Samherja hf. vegna meintra brota fyrirtækisins á reglum um gjaldeyrisskil. Málarekstur hafði staðið árum saman og lauk með því að æðsti dómstóll landsins staðfesti fullkomlega sjónarmið Samherja. Eftir stóð Seðlabankastjórinn enn naktari og vandræðalegri en keisarinn klæðalausi í ævintýri H. C. Andersen.

„Seðlabankinn réðst inn í aðalstöðvar Samherja með fulltingi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. og hafði áður undirbúið og fóðrað Helga Seljan í Kastljósi RÚV sem málpípu sína og ríkisstjórnarinnar. Innrásin átti sér stað sólarhring eftir að ríkisstjórnin lagði frumvörp um veiðigjöld fram á Alþingi og myndaði í leiðinni þrenningu með Seðlabankanum og fjórum þáttum í Kastljósi í þeim tilgangi  að þyrla upp sem mestu moldviðri og koma höggi á sjávarútvegsfyrirtækin. Samherji og Vinnslustöðin voru tekin þar sérstaklega fyrir. Nú skyldi sýna andskotans sægreifaliðinu í tvo heimana fyrir að voga sér að andæfa veiðigjöldum.

Löngu síðar kom á daginn að Seðlabankinn hafði líka vegið að Vinnslustöðinni úr launsátri vegna meintra brota gjaldeyrislögum, bæði rannsakað starfsemi fyrirtækisins án þess að við vissum af því og leitað upplýsinga hjá okkur til að nota gegn Samherja án þess að við gerðum okkur grein fyrir því. Sjálfur hafði ég stöðu grunaðs manns og öll stjórn Vinnslustöðvarinnar sömuleiðis fram í mars 2014 eða í þrjú ár samfleytt án þess að hafa hugmynd um það.

Auðvitað höfðu hvorki Vinnslustöðin né Samherji brotið lög um gjaldeyrisskil. Það vissi sérstakur saksóknari og það vissi meira að segja fjöldi starfsmanna í Seðlabankanum sjálfum. Seðlabankastjórinn lét sér samt ekki segjast og stóð að lokum uppi klæðalaus í Hæstarétti.

Allt þetta mál er satt að segja óhugnanlegt og lyginni líkast. Ýmsum kann að þykja ég taka stórt upp í mig með því að spyrða saman þáverandi ríkisstjórn, Seðlabankann og Kastljós í dæmalausri aðför að sjávarútvegsfyrirtækjum forðum. Þá skal nefnt að seint á nýliðnu ári fékk ég óvænt nýjar upplýsingar um aldeilis ótrúleg vinnubrögð Ríkisútvarpsins í þessu tiltekna máli.

Vonandi verða þau spil lögð á borð opinberlega og þá mun þeim sem ábyrgð bera í Efstaleiti 1 hvorki gagnast að reyna að þegja skandalinn í hel né svara með útúrsnúningum. Spurt verður um viðbrögð gagnvart starfsmönnum sem brutu af sér og viðbrögð gagnvart þeim sem Kastljós braut á.“