Á fundi bæjaráðs í gær var farið yfir niðurstöður samráðshóps um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum frá fundi hópsins sem haldinn var þann 28. nóvember sl. Þar kom fram að fundarmenn hefðu verið sammála um að stjórnun ferðamála Vestmannaeyjabæjar væri best borgið í höndum hagsmunaaðila í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Jafnframt kom fram tillaga um að fulltrúar ferðaþjónustunnar taki að sér umsjón ferða- og markaðsmála á vegum bæjarins. Auk þess að skipuð verði sjóðstjórn, sem tekur sameiginlega ákvarðanir um útgjöld til markaðsmála sem og annara aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunnar. Að lokum kom fram að mikilvægt sé að hópurinn geti tekið til starfa sem allra fyrst.

Þá fjallaði bæjarráð um fyrirhugaða samninga við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um rekstur Sagnheima og Sæheima. Auk þess fjallaði bæjarráð um tillögu Þekkingarsetursins um áframhaldandi samkomulag við Vestmannaeyjabæ um eflingu ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að ljúka við gerð samnings við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um rekstur Sagnheima og Sæheima. Bæjarráð samþykkti tillögu samráðshóps um framtíðarskipan ferðamála í Vestmannaeyjum, um að breyta fyrirkomulagi á skipulagi ferðamála í samræmi við niðurstöðu starfshópsins. Skipuð verði þriggja manna stjórn sem tekur ákvörðun um útgjöld til markaðsmála sem og annarra aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunnar. Óskað verður eftir tilnefningum um tvo fulltrúa frá ferðaþjónustunni, en ákveðið er að framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs verði fulltrúi Vestmannaeyjabæjar í stjórninni og jafnframt formaður hennar. Framkvæmdastjóra stjórnýslu- og fjármálasviðs og fjármálastjóra verður falið að gera drög að samkomulagi við samtök ferðaþjónustunnar um fyrirkomulag úthlutunar og framkvæmd verkefnsins.

Að endingu þakkaði bæjarráð samráðshópnum fyrir góða vinnu og óskaði eftir að hann starfaði áfram stjórninni til ráðgjafar um málefni ferðaþjónustunnar.