Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var ný 32 farþega skrúfuþota Ernis kyrrsett vegna ógreiddra gjalda til ríkisfyrirtækisins Isavía. Hörður Guðmundsson eigandi Ernis sagði í samtali við Eyjafréttir að kyrrsetningin hafi komið á mjög viðkvæmum tíma og að fjárhagsstaða félagsins væri þung og verið væri að bregðast við því með fækkun ferða.

„Fjárhagsstaða félagsins er frekar þung um þessar mundir, sem er ekki nýmæli hjá flugrekendum yfir vetrarmánuðina. Flugfélagið Ernir er lítið en mikilvægt fjölskyldufyrirtæki sem herfur verið að gera sitt ýtrasta til að halda uppi óstyrktum almennings samgöngum til Eyja undanfarin ár. Flogið hefur verið tvisvar á dag flesta daga sem fært er til flugs. Auk þess sem oft eru settar upp aukaferðir ef um viðburði og eða samfélagslegar athafnir að ræða eins og t.d. jarðafarir, brúðkaup, stórafmæli og annað slíkt sem máli skiptir í hverju samfélagi,“ sagði Hörður.

Félagið verður leita allra leiða til að draga úr kostnaði
Fargjöld hafa ekki náð að standa undir síauknum kostnaði við áætlunarflugið og verulegt tap hefur myndast, „núna er félagið að bregðast við þessu. Það hafa safnast að félaginu nokkrar skuldir sem kröfuhafi sækir fast að verði greiddar sem fyrst. Eitt helsta markmið félagsins er að veita eins góða og örugga þjónustu og hægt er miðað við aðstæður hverju sinni. Nú er staðan sú að félagið verður leita allra leiða til að draga úr kostnaði, því hefur verið ákveðið að fækka ferðum og flugdögum til að lágmarka fyrirsjáanlegt tap félagsins. Þetta er sársaukafull ákvörðun fyrir félagið og á við flug þess til Vestmannaeyja og Húsavíkur. Þetta er bagalegt fyrir allt innanlandsflug og vaxandi ferðaþjónustu á þeim stöðum sem flugnet okkar nær yfir,“ sagði Hörður. 

Margfaldað tjón og orðspor félagsins í hættu
Herði finnst kyrrsetning vélarinnar ótímabær, „á þessari stundu er óljóst hvenær eða hvort kyrrsetningunni verði aflétt. Þetta hefur margfaldað tjón og orðspor félagsins bæði hér heima og erlendis. Ernir hefur verið með í burðarliðnum samninga við erlendar ferðaskrifstofur sem vilja koma viðskiptavinum sínum m.a, til Eyja, Húsavíkur, Hornafjarðar og víðar út á landsbyggiðna á komandi sumri. Í þeim tilgangi lagði félagið í að fjárfesta í öflugri flugvél en það hefur áður haft í þjónustu sinni. Hluti þess markaðstarfs sem unnið hefur verið undanfarin misseri er nú í uppnámi og því óvíst hvort nýjir erlendir aðilar sem leitað hafa eftir viðskiptum treysti á framhald flugsamgangnanna,“ sagði Hörður.

Gera allt til þess að takmarka óþægindi viðskiptavina
„Því miður leiða þær aðstæður sem við okkur blasa að óumflýjanlegt er fyrir félagið að bregðast við með samdrætti og verður því niðurskurður á áætlunarflugi. Ég vil geta þess að Flugfélagið Ernir mun gera all sem í þess valdi stendur til að takmarka óþægindi viðskiptavina sinna sem af fyrirsjáanlegum samdrætti leiðir. Ernir munu að sjálfsögðu óskað eftir að fá að þjóna þeim byggðum sem nú verða fyrir skerðingu áfram ef úr rætist og óskað verði eftir starfsemi félagsins,“ sagði Hörður að endingu.