Bergey VE landaði í Vestmannaeyjum sl. mánudag og aftur í dag. Aflinn á mánudaginn var 76 tonn eða fullfermi en í dag um 50 tonn.  Vestmannaey VE landaði fullfermi í Eyjum sl. þriðjudag eða 76 tonnum. Heimasíðan hafði samband við skipstjórana og spurði hvernig árið færi af stað. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að það byrji nokkuð vel. „Árið byrjar bara vel og nokkuð betur en í fyrra. Það er þó engin vertíð hafin. Vertíðin ætti að hefjast um næstu mánaðamót, þá ætti að vera komin fiskur hérna við Eyjarnar og þá ætti alvöru aksjón að vera að byrja. Það hefur samt verið tiltölulega góð veiði hjá okkur í tveimur fyrstu túrum ársins. Við höfum verið á Breiðamerkurdýpi og Skeiðarárdýpi og þar hefur mest fengist ýsa og karfi. Við getum ekki kvartað yfir gangi mála í byrjun ársins,“ segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Birgi og segir að árið byrji vel. „Við höfum verið að veiðum á Skeiðarárdýpi og við Ingólfshöfða og þar hefur verið ágætur afli í fótreipistroll. Við erum að landa í dag eftir stuttan túr og fengum góðan afla við Pétursey. Þarna fékkst stór þorskur og í honum voru ansi myndarleg hrogn. Það er farið að styttast í vertíðina og farinn að sjást göngufiskur hérna við Eyjarnar,“ segir Jón.

Birtist á vef Síldarvinnslunnar.