Í gær var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Vestmannaeyja. Miklar breytingar urðu á fundinum og þar á meðal urðu formannsskipti. Helgi Bragason hætti sem formaður eftir að hafa gengt því hlutverki í 18 ár. Ásamt Helga gengu einnig úr stjórn Haraldur Óskarsson, Eyþór Harðarson og Jón Árni Ólafsson.

Nýr formaður Golfklúbbs Vestmannaeyja er Sigursveinn Þórðason og sagði hann í samtali við Eyjafréttir að það hefði verið leitað til hans um að taka formennskuna að sér, „eftir nokkra umhugsun ákvað ég að slá til. Ég hef verið í Golfklúbbnum í fjölda ára og er mikill áhugamaður um íþróttina en það var ekki síst vegna þess hversu öfluga einstaklinga ég fékk með mér inn í stjórnina sem ég ákvað að láta slag standa. Hér hefur einn besti golfvöllur á Íslandi verið rekinn af miklum myndarbrag undanfarin ár og stórir skór sem við í nýrri stjórn þurfum að fylla,“ sagði Sigursveinn.

Aðspurður sagði Sigursveinn þetta leggjast vel í sig, „við erum rétt að byrja að átta okkur á umfanginu og munum á næstu vikum halda áfram þar sem frá var horfið í undirbúningi fyrir komandi sumar. Við í stjórninni vonumst eftir góðu og farsælu sambandi við félaga okkar í klúbbnum sem og aðra bæjarbúa,“ sagði Sigursveinn að endingu.

Ásamt Sigursveini eru þá núna í stjórn, Guðjón Gunnsteinsson, Harpa Gísladóttir, Una Þóra Ingimarsdóttir, Hallgrímur Steinsson, Sigurjón Pálsson, Óðinn Kristjánsson.