Á fundi Fjölskyldu- og tómstundaráðs í vikunni var tekin fyrir ósk samtaka um kvennaathvarf sem óskaði eftir rekstrarstyrk frá Vestmannaeyjabæ fyrir árið 2019. Fjölskyldu- og tómstundaráð samþykkti 80.000 kr styrk fyrir athvarfið.

En þess má geta að Kvennathvarfið er athvarf fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis. Á hverju ári dvelja á annað hundrað konur í athvarfinu til lengri eða skemmri tíma þar sem þær fá vernd, ráðgjöf og stuðning við að taka næstu skref.
Kvennathvarfið er með viðtöl þar sem konur sem búa við eða hafa búið við ofbeldi í nánum samböndum geta fengið ráðgjöf og stuðning án þess að til dvalar komi. Viðtölin eru konum að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum hvað varðar tíðni og fjölda.
Kvennathvarfiðer með neyðarsíma þar sem veitt er ráðgjöf og stuðningur allan sólarhringinn.
Kvennathvarfið starfrækir sjálfshjálparhópa þar sem konur sem hafa verið beittar ofbeldi styrkja sig í sameiningu með aðstoð leiðbeinanda. Einnig býður Kvennaathvarfið upp á fræðslu og upplýsingar um kynbundið ofbeldi svo sem til skóla, vinnustaða og félagasamtaka.