Eyjafréttir afhentu Ingibergi Fréttapýramída á síðasta ári fyrir þetta framlag sitt til menningar Vestmannaeyja.

Aðfararnótt þriðjudagsins 23. janúar 1973 urðu til ekki færri en 5300 sögur af fólki sem þurfti að yfirgefa heimili sín í Vestmannaeyjum. Fara um borð í báta sem lágu í höfninni og sigla út í óvissuna. Þetta gerðist fyrir 46 árum þegar gos hófst á Heimaey. Flestir Íslendingar þekkja þá sögu og engir betur en Vestmannaeyingar. Margt hefur verið skráð um þá miklu atburðarás sem þarna hófst og er kannski ekki lokið enn því margt er óuppgert.

Þegar hugmynd kom upp í Sagnheimum að safna saman nöfnum þeirra sem fóru upp á land greip Ingibergur Óskarsson boltann á lofti og hefur unnið að því frá þeim tíma að safna og skrásetja nöfnin og hefur náð ótrúlegum árangri. Vinnur hann þetta í samstarfi við Sagnheima og Helgu Hallbergsdóttur, forstöðukonu.  Listinn verður aldrei fullkominn en nú vantar aðeins örfá hundruð upp á sem verður að teljast einstakt afrek.

Rann blóðið til skyldunnar
Ingibergur er Eyjamaður, sonur Óskars Matthíassonar, skipstjóra og útgerðarmanns og skipstjóra á Leó og Þóru Sigurjónsdóttur, húsmóður. ,,Ég er alltaf með annan fótinn í Eyjum vegna vinnu minnar,“ sagði Ingibergur í samtali við Eyjafréttir 2015. „Það endaði með því að ég setti upp facebooksíðu sjálfur og þau voru til í samstarf,“ segir Ingibergur og það stóð ekki á viðbrögðunum.
„Við fengum óvænt birtingu  og umfjöllum í öllum helstu fréttamiðlum landsins sem hjálpaði. Nafnið á síðunni kom nokkuð af sjálfu sér. Fyrst kom, Allir í bátana en til að tengja hana  við gosárið breytti ég nafninu  í 1973 í bátana, hefði alveg eins getað endað sem 1973-Allir í bátana sem er reyndar nafnið á nýju heimasíðunni.“

Strax góð viðbrögð
Ingibergur byrjaði á að útbúa spurningar í könnunina með aðstoð frænda síns, Gísla Matthías Gíslasonar.  „Við erum bræðrasynir en foreldrar hans fengu Fréttapíramídann 2014. Þarna gat fólk hakað við í hvaða bát það fór upp á land. Við fengum mjög  góð viðbrögð en þetta var ekki gallalaus lausn. Þó nokkuð var um að þeir sem ætluðu að skoða hverjir voru í öðrum bátum hökuðu  óvart við þannig að það var eins og þeir hefðu verið um borð í viðkomandi bát.
Það varð til þess að ég treysti ekki skráningunni sem slíkri en kosturinn var þó að ég var kominn með tengingu við þá sem tóku þátt í könnuninni og gat sent skilaboð á facebook og spurt hvort viðkomandi hafi í raun verið um borð í viðkomandi bát.“  Ingibergur segir að þetta hafi valdið því að greina  þurfti  þá sem höfðu svarað spurningunni frá þeim sem var búið að staðfesta í báta. ,,Ég hef náð í nánast alla sem óvissa var með og tekið hina til hliðar,“ segir Ingibergur sem birti farþegalistana upphaflega á facebooksíðunni. Bjó hann til möppu fyrir hvern bát og birti mynd af farþegalistanum.

Alls voru bátarnir 57
„Þessi  aðferð var í raun alltof flókin og leitaði ég því að betri lausn sem ég svo fann á bloggsíðu sem ég útbjó á blogspot.com.  Núna er ég með í höndunum farþegalista frá hverjum bát sem alls voru 57, bæði Eyja- og aðkomubátar.   Er ég byrjaður á að safna saman hverjir voru í áhöfnum bátanna og það gengur bærilega.’’
Ingibergur  segir erfitt að gera sér grein fyrir hve margir voru í áhöfn hvers báts þar sem sumir bátarnir voru ekki byrjaðir að róa og því jafnvel bara skipstjóri og vélstjóri  í áhöfn. Hann hefur ekki  farið í þá vinnu að fá lögskráningu hvers báts. Hann er þó búinn að fá senda skráningu þriggja báta en þá kom í ljós að ekki fóru allir úr áhöfn með sínum bát.

Nálgast 5000
Ingibergur er búinn að skrá um 4820 manns sem voru í Eyjum, hvort og þá hvernig þeir fóru. Til viðbótar eru 10 einstaklingar sem búið er að stafesta að voru í Eyjum en vantar upplýsingar um hvort og þá hvernig þeir fóru. Loks eru um 110 sem vitað er að fóru með bát en ekki hefur tekist að rekja nafn bátsins.
,,Eitthvað af aðkomufólki hlýtur að vera óskráð, einnig komum við ekki til með að geta skrá þá útlendinga sem enn eru óskráðir. Eitthvað að fólki var að koma á vertíð með Herjólfi um nóttina og er ekki skráð hjá mér.’’

1973-alliribatana.com
Haustið 2017 ákvað Ingibergur að færa verkefnið yfir á vefsíðu og gaf henni nafnið 1973-alliribatana.com. ,,Aðal ástæðan var sú að það hafði tekið mikla orku að uppfæra farþegalistana og með þessu var einnig hægt að fletta beint í gagnagrunninum.
Hægt var þá að leita eftir nafni, heimilisfangi eða bát.
Setti hann inn myndir af þeim bátum sem hann hafði myndir af og höfðu áður birst með hverjum farþegalista. Allar á sömu síðu með smá upplýsingum um hvern bát.
Fékkst leyfi til að birta myndir á síðunni sem teknar eru á gostímanum ásamt nokkrum myndböndum. Einnig eru á síðunni úrklippur úr öllum blöðunum um Heimeyjargosið sem birtust í janúar 1973. Þeir sem vilja fá sínar gosmyndir birtar geta haft samband á [email protected].‘‘
Ingibergur gerir ekki ráð fyrir að listinn verði fullkominn. Það sé einfaldlega ekki hægt að ná utan um alla sem flúðu Heimaey þessa nótt 45 árum síðar. „Á endanum lendir maður á vegg og ég er nánast kominn að honum.
Ég hvet alla til að skoða síðuna 1973-alliribatana.com og kanna hvort ættingjar séu ekki örugglega rétt skráðir. Endilega hafði sambandi ef þörf er á að leiðrétta’’ segir Ingibergur að lokum.