Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja á fimmtudaginn var lögð fram sameiginleg bókun allra bæjarfulltrúa varðandi heilbrigðismál í bænum. Þar lýsa bæjarfulltrúar yfir ánægju yfir því að læknum búsettum í Vestmannaeyjum sem starfa á HSU fari fjölgandi og óskandi að sú jákvæða þróun haldi áfram.
Nauðsynlegt er jafnframt að sú grunnþjónusta sem boðið hefur verið upp á hingað til verði áfram til staðar. Þjónusta augnlæknis og sónarþjónusta verði í boði en óviðunandi skortur á þessari þjónustu veldur kostnaðarauka og óþægindum fyrir íbúa. Bæjarstjórn skora á þingmenn og heilbrigðisráðherra að bregðast hið fyrsta við óásættanlegri stöðu hvað sjúkraflug varðar en slíkt hefur ekki verið gert þrátt fyrir svarta skýrslu ríkisendurskoðunar frá 2013 hvað málið varðar. Bráðaþjónustu þarf að efla í sveitarfélaginu til að öryggi íbúa verði tryggt eftir fremsta megni. Bæjarstjórn skora einnig á heilbrigðisráðherra að nýta tækifærin í tækninni og stórefla fjarheilbrigðisþjónustu en slíkt er líklegt til að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, draga úr kostnaði og bæta almenn lífsgæði og heilsufar íbúa.

Yfirmenn HSU og þingmenn kjördæmisins eru hvattir til að beita sér fyrir bættu aðgengi íbúaí Vestmannaeyjum að heilbrigiðsþjónustu.