Jón Ólafsson mætir í Háaloftið á laugardaginn með tónleikana sína af fingrum fram. Með honum mætir Stefán Hilmarsson sem er óumdeilanlega einn vinsælasti söngvari vorra tíma og hefur sýnt að hann er marghamur í söngefnunum. Á tónleikunum mun hann sýna allar sínar bestu hliðar og rifja upp músík Sálarinnar og Pláhnetunnar auk þess sem af nógu er að taka þegar sólóferillinn er annars vegar.

Jón Ólafsson sagði í samtali við Eyjafréttir að ekkert kvöld væri eins á tónleikunum, en stemmingin alltaf góð, „ég get lofað því að það verður mikið hlegið, góðar sögur, en fyrst og fremst verður spiluð góð tónlist. Við vorum að spila í Kópavogi í gær og þar voru sagðar sögur sem ég hef ekki einu sinni heyrt og Stefán nýtti tækifærið og tók lag sem hann hefur aldrei sungið áður. Þetta var virkilega vel heppnað allt saman og verður það líka þegar við komum saman í Háaloftinu á laugardaginn. Ég hvet alla Eyjamenn sem eru búnir að plana kvöld fyrir framan sjónvarpið að koma frekar og eiga góða kvöldstund með okkur,“ sagði Jón að endingu.