Ég hef áður skrifað um ólgu og óróleika sem mér finnst hafa einkennt bæjarpólitíkina síðustu mánuði. Síðustu fundir bæjarstjórnar og bæjarráðs bera það með sér að lítil breyting virðist vera í vændum hvað það varðar.

Einn af hápunktum síðasta bæjarstjórnarfundar var þegar minnihlutinn mótmælti kröftuglega úttekt á verklagi og fjármögnun framkvæmda við Fiskiðjuna. Raunar urðu mótmælin svo kröftug að bókað var að um lögbrot hafi verið að ræða. Hið meinta lögbrotið felst í því að eftir fund bæjarráðs var haft samband við endurskoðendur, gagnasöfnun starfsmanna bæjarins hófst og verkefnið var sett í gang, án þess að bæjarstjórn hafi staðfest ákvörðunina.

Öllum ætti að vera það ljóst að upphlaup sjálfstæðismanna er einungis til þess fallið að kasta rýrð á fyrrnefnda úttekt. Þeir eru, eins og svo oft áður, á móti. Og nú rennur þeim blóðið til skyldunnar og eru á móti því að skoða hvort eitthvað sé hægt að bæta við verklag bæjarins þegar kemur að framkvæmdum. Hvers vegna má ekki láta athuga það? Af hverju má ekki láta athuga hvort þessi framkvæmd hafi farið fram úr áætlunum, og draga lærdóm af því?

Það kann að koma þeim sem fylgdust með fundinum eða lásu fundargerðina spánskt fyrir sjónir að fyrr á sama fundi húðskammaði þetta sama fólk okkur í meirihlutanum fyrir að hafa ekki kynnt nýjar reglur um afslátt af fasteignagjöldum fyrir eldri borgurum áður en álagningarseðlar voru sendir út.

Hér skulum við staldra aðeins við. Bæjarstjórn var ekki heldur búin að staðfesta þær reglur. Sjálfstæðismenn áttu ekki til orð yfir því að bæjarstjóri hafði ekki brotið sveitarstjórnarlög með því að kynna þessar einföldu reglur án þess að þær hafi verið staðfestar af bæjarstjórn! Er nema von að ég sé hættur að skilja þetta! Ég er sakaður um lögbrot, en skammaður fyrir að hafa ekki brotið lög nokkrum mínútum fyrr. Þetta er í raun alveg stórmerkilegt.

Strax á fundinum leitaði ég eftir áliti lögfræðings Sambands Íslenskra Sveitarfélaga þar sem ég hafði verið borinn þungum sökum. Nokkrum dögum síðar barst mér ítarlegt svar þar sem sagði meðal annars:

„Þar sem bæjarráði er falin heimild til fullnaðarákvörðunar skv. ákvæði samþykktar um stjórn sveitarfélagsins, þarf miklu fremur að horfa til þess hvort að úttektin rúmist innan ramma fjárhagsáætlunar heldur en hvort að ákvörðunin hafi verið samþykkt samhljóða í ráðinu“.

Og enn fremur:

„Málefni sem falla undir verksvið byggðarráða eru almennt mjög mikilvæg fyrir stjórnsýslu og rekstur sveitarfélaganna. Það að sveitarfélagið hafi sett sér svo ítarlegt ákvæði um heimild bæjarráðs til fullnaðarákvörðunar er væntanlega til þess fallið að auka skilvirkni í stjórnsýslu sveitarfélagsins fremur en að vinna gegn henni“.

Ekki vænti ég þess að minnihlutinn treysti áliti lögfræðings Sambands Íslenskra Sveitarfélaga, ekki frekar en þeir treystu áliti lögfræðinga Sveitarstjórnarráðuneytisins um lögmæti reglna varðandi niðurfellingu fasteignaskatts eða áliti lögmanns bæjarins sem taldi hluthafafund í Herjólfi ohf. á sínum tíma ekkert nema lögmætan.

Eini lögskýrandinn sem sjálfstæðismenn virðast leggja traust sitt á er oddviti þeirra í bæjarstjórn Vestmannaeyja sem segist nú vera að íhuga næstu skref. Rétt er að benda honum á 109. gr. sveitarstjórnarlaga en þar segir að ráðherra (ráðuneyti) hafi eftirlit með því að sveitarstjórnarlögum sé framfylgt.

Það kæmi sér vel fyrir sjálfstæðismenn að treysta lögfræðingum ráðuneytisins, að minnsta kosti ef þeir vilja halda málinu til streitu.

Nú þegar bæjarstjórn hefur samþykkt úttektina heldur vinnan við hana því áfram og málið er því í góðum farvegi.

 

Njáll Ragnarsson