Ég er bölvaður besserwisser. Helstu einkenni þess eru leti við að kynna sér málin til fullnustu áður en ég tjái mig um þau og svo sá gjörningur að vera að hugsa um hvað ég ætla að segja næst, á meðan að annar er að tala, í stað þess að hlusta á viðkomandi. Hluti af þessu er líka það að ég hef alltaf haft gott minni. Ef ég spila eitthvað lag í G-dúr þá man ég alltaf að það var í G-dúr og þegar ég var í skóla þurfti ég einfaldlega að hlusta í tímum og þá var 8 í einkunn nokkuð trygg og því eyddi ég ekki miklum tíma í prófalestur.

Vandi og tæknilegar lausnir
Undanfarið hefur þó farið að halla á þetta minni mitt og besserwisserinn ég var alveg handviss um hvað málið snérist. Þar sem ég rétt rúmlega þrítugur maðurinn gat útilokað elliglöp hlaut þetta að hafa eitthvað með aukið álag að gera og að ég þyrfti bara að skipuleggja mig betur. Ég tók létta rassíu í skipulagsmálum, halaði inn öppum sem samstillast (e. Sync) milli síma og tölvu og minna mig hvenær ég ætti að gera hvað. Þetta var sennilega besta leiðin til að auka vandann því nú gerist ekki neitt nema ég skrái það í minnisforritið, og ef ekkert er á dagskrá þann daginn líður mér samt eins og ég sé að gleyma einhverju.

Heilalaus tímasóun
Að lokum áttað ég mig á því að besserwisser planið hafði klikkað. Ég fór því að horfa í mynstur hefðbundins vinnudags og ég sá að milli allra daglegra verkefna er ekki einn stund án áreitis. Samskiptamiðlar og almenn heilalaus notkun internetsins smýgur á milli allra þeirra verkefna sem í raun skila einhverri framvindu í lífi og starfi. Ég er stanslaust að angra heilann í mér með tilgangslausu áreiti sem bætir mig og þekkingu mína ekki á nokkurn máta. Þetta er fíkn.

VEY- Starf sérkennsluráðgjafa leikskóla

Áhrifin
Kostnaðurinn við samskipamiðlafíkn er í mínu tilfelli minni þjálfun fyrir heilann. Ég les færri bækur sem hægir á ímyndunaraflinu og ég horfi meira á bíó, þar sem allt myndrænt er þegar hannað fyrir áhorfandann. Að einbeita sér að einhverju einu verður erfiðara og það sem er mér kannski ömurlegast, ég skapa minni tónlist enda gef ég mér ekki eins mikinn tíma til að spila á gítarinn.

Í fullkomnum heimi
Oft er hægt að ná tökum á fíkn með að fjarlægja áreitið, líkt og fyrir alkóhólistann að hætta að drekka áfengi. Öðru gegnir með samskiptamiðla því þeir sem þá hafa hannað hafa á meistaralegan hátt gert þá ómissandi verkfæri við hin ýmsu störf. Ég t.d. á erfitt með að sjá fyrir mér starf mitt í kirkjunni, þar sem ég vinn mikið með unglingum, án samskiptamiðla. Því þarf að koma reglu á óregluna. Hætta tilgangslausu skrolli, slökkva á tilkynningum og setja sér fastann tíma þar sem maður fer skipulega yfir tilkynningar sem skipta einhverju máli. Það er það sem fullkomna útgáfan af mér myndi gera. Sjáum til. Kannski í fullkomnum heimi. Ef það gengur ekki finnur besserwisserinn sjálfsagt aðra leið.

Gísli Stefánsson