Heimaþjónusta Vestmannaeyjabæjar hefur tekið í notkun rafrænt heimaþjónustukerfi Careon sem notað er í snjallsíma. Kerfið mun auka gæði og bæta yfirsýn yfir þá þjónustu sem heimaþjónustan er að veita.

„Kerfið virkar þannig að starfsfólk okkar fær upplýsingar í símann sinn um þá þjónustu sem það á að veita á heimilum og hvenær þjónustan á að fara fram. Til að auka áreiðanleika þjónustunnar þarf að setja upp rafrænt auðkenni í formi límmiða á þeim heimilum sem eru með heimaþjónustu. Starfsmenn okkar staðfesta komu sína með því að bera snjallsímann upp að límmiðanum og svo aftur þegar þjónustunni er lokið. Þá berast upplýsingar um komutíma, veitta þjónustu og brottfarartíma strax í símann og á sama tíma til stjórnenda heimaþjónustunnar. Þetta fyrirkomulag gerir starfsfólki auðveldara um vik að bregðast hratt við þegar á þarf að halda og ef gera þarf breytingar á þjónustunni með skömmum fyrirvara,“ segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.