Í febrúar heimsóttu ítalskir meistarakokkar Vestmannaeyjar heim en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þeir koma þar sem þeir voru hérna með ítalska daga á Einsa Kalda fyrir fjórum árum. Með í för var Marco Savini en hann er frá einu af virtari trufflufyrirtækjum á Ítalíu, sem eru í viðskiptum við marga af þekktustu kokkum heims, eins og Gordon Ramsey, Alex Atala og fleiri.

 

Eyjamaðurinn Sigurjón Aðalsteinsson hefur verið með annan fótinn í Ítalíu síðustu ár og sagði hann í samtali við Eyjafréttir að þeir væri mjög áhugasamir um Vestmannaeyjar og ætla þeir að koma aftur í mars og halda Ítalska daga á Einsa Kalda. Meistarakokkurinn sem kemur heitir Michele Mancini (Mike) og mun hann sjá til þess að angan og bragð Toskanahéraðs berist um veitingastaðinn Einsa kalda dagana 14., 15 og 16. mars n.k.

Stemmingin verður svona í eldhúsinu á Einsa Kalda helgina 14,15 og 16 mars.

Mike sem er í annað sinn að heimsækja okkur á Einsa kalda, tók þátt í ítölsk­um dög­um sem haldn­ir voru í Eyj­um fyrir tæplega fjórum árum. Hápunkt­ur­inn þá var átta rétta gala­kvöld­verður á Einsa kalda, þar sem „dem­ant­ar“ ít­alskr­ar mat­ar­gerðar voru óspart notaðir; fersk­ar truffl­ur.  Í þessari ferð eignaðist Mike fjölda góðra vina, sem hann vonar innilega að láti sjá sig á ítölsku kvöldunum í febrúar. Einnig gerðist hann grjótharður aðdáandi íslenska landsliðsins, eitthvað sem kostaði hann nærri vinnuna hjá góðvini sínum Buffon, fyrrverandi landsliðsmarkvarðar Ítalíu.
Mike er yfirkokkur á veitingastaðnum Enoteca L’olivo, en hann er staðsettur á hótel Stella Della Versilia, í Toskana héraði er eins og áður segir í eigu góðvinar hans, þ.e. Gianluca Buffon. Einsi og Mike ákváðu síðasta sumar þegar þeir hittust á Ítalíu að á ítölsku kvöldunum í Eyjum myndu flestir fá eitthvað við sitt hæfi.

Þeir ætla sem sagt að byrja á að bjóða uppá pasta námskeið á fimmtudagskvöldinu, sem verður eingöngu fyrir konur á öllum aldri og fylgja því síðan eftir á föstu- og laugardagskvöld með hefðbundnum ítölskum réttum. Með í för verður Marco Savini frá trufflufyrirtækinu Savitar, en hann mun án efa gæða einn af réttunum himneska trufflubragði.

Þetta er í fjórða skipti sem boðið er upp á Michelin pop-up viðburð á veitingastaðnum Einsa kalda og alltaf hefur verið fullt og mikil stemning. Samhliða matarupplifuninni höfum við fengið veislustjóra í hvert skipti til að fræða gesti og skemmta. Páll Magnússon alþingismaður sló rækilega í gegn sem veislustjóri á Michelin pop-up kvöldverði í hittifyrra en hann ætlar að gera okkur þann heiður að endurtaka leikinn í ár.

 

Verðmætasta matarafurð heims

Á truffluveiðum

Í faðmi skóganna og hæðanna í Toskana liggur bærinn San Miniato, hátt uppi á hæð þar sem útsýnið er svo stórkostlegt að maður stendur hreinlega á öndinni. Toskanaútsýni eins og það gerist fegurst, með hæðir hóla, sveitabæi og lítil vinaleg þorp. Í þessari stórbrotnu náttúru er að finna einn af dularfyllstu og dýrmætustu ávöxtum í heiminum, trufflusveppinn. Þessi fágæti og verðmæti matsveppur vex neðjanjarðar, við rætur sérstakra trjáa og hann er aðeins hægt að finna með hjálp þefnæmra dýra sem þekkja og kunna að meta angan hans.

Trufflusveppsins er fyrst getið í súmversku myndletri frá því um 2000 fyrir krist. Elstu heimildir greina frá því að gyltur hafi verið látnar finna trufflusveppinn því að angan trufflanna minnir þær víst á lykt af kynkirtlum galta.

Sauðsvarturinn almúginn skemmti sér konunglega á öldum áður við að fylgjast með snobbuðum aðalsmönnum þvælast um með svín í leit að trufflum. Það þótti nefnilega ekkert sérstaklega fínt í gamla daga að vera mikið í félgasskap með svínum og sumum þykir það enn vera fyrir neðan virðingu sína.

Eins og flestir vita eru svín ansi lystug og voru þau nokkuð gráðug í truffluna og erfitt að koma í veg fyrir að þau gleyptu hana í snarhasti. Þau valda auk þess talsverðum umhverfisspjöllum þegar þau eru í truffluleit. Sérþjálfaðir hundar hafa alfarið tekið við hlutverki svínanna. Nokkrar hundategundir eru notaðar við leitina, eins og t.d. Lagotto Romagnolo sem nýtur sérstakrar viðurkenningar og virðingar á þessu sviði, enda eru þeir með einstakt þefskyn, alúðlegir, næmir og námfúsir.

Lengi trúði fólk því að trufflur yxu þar sem eldingu hafði slegið niður. Rómverski lögspekingurinn og rithöfundurinn Cicero, sem lést skömmu fyrir Kristsburð, kallaði trufflur „börn jarðarinnar“ en gríski grasafræðingurinn Dioscorides, sem var uppi á svipuðum tíma, taldi trufflur vera forðarætur. Þannig að trufflur hafa alltaf vakið forvitni og áhuga og ekki aðeins hjá þeim sem hafa þróuðustu bragðlaukana heldur einnig hjá mestu andans mönnum.

Trufflur hafa verið eftirsóttar allt frá tímum Grikkja og Rómverja og um tíma gekk yfir eins konar truffluæði og var fólk þá líkt og nú tilbúið að greiða mjög hátt verð fyrir góðar trufflur. Yfirleitt er trufflum skipt í sumar- og vetrartrufflur eftir vaxtartíma þeirra og þeim síðan í svartar og hvítar trufflur. Hvítar trufflur finnast eingöngu á Ítalíu og eru þær mjög eftirsóttar og í raun verðmætasta matarafurð heims.