Heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær að 630 milljónum króna af fjárlögum ársins verður ráðstafað til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu, þar af fær Heilbrigðisstofnun Suðurlands 58 milljónir. Stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslum verður fjölgað og geðheilsuteymi verða efld og byggð upp um allt land.

Svandís talaði á fundinum um mikilvægi þess að landsmenn eigi allir greiðan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu, hvort sem vandamálin eru af líkamlegum eða geðrænum toga. Snemmtæk íhlutun sé grundvallaratriði og forvarnir eigi að skipa ríkan sess. Sú uppbygging geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu sem nú eigi sér stað stórauki möguleikann á því að veita fólki þessa mikilvægu þjónustu í heimabyggð.

Einnig kom fram að heilsugæslan þurfi að vera í stakk búin til að takast á við þau heilbrigðisvandamál fólks sem algengust eru, hvort sem þau eru líkamleg eða geðræn. „Uppbygging sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar er liður í því að efla heilsugæsluna hvað þetta varðar. Þannig á fólk að geta fengið meðferð og stuðning vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíðaraskana í heilsugæslunni.“

Geðheilsuteymin eru hugsuð sem annars stigs heilbrigðisþjónusta og er þjónustan veitt á grundvelli tilvísana. Þar er tekið á vanda fólks þegar hann er flóknari en svo að hægt sé að mæta honum innan heilsugæslunnar. Tvö geðheilsuteymi eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu og verið er að undirbúa opnun þess þriðja.

560 milljóna króna viðbótarfjárveitingu
Einnig hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að veita heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni um 560 milljóna króna viðbótarfjárveitingu fyrir rekstrarárið 2018. Þar af fær HSU um 110 milljónir. Aukningin nemur að jafnaði um 3% af heildarfjárveitingu stofnananna á árinu.

Aukafjárveitingunni er fyrst og fremst ætlað að mæta halla á rekstri stofnananna sem að einhverju leyti stafar af veikleika í rekstri en má einnig rekja til ófyrirséðra útgjalda, t.d. vegna mönnunarvanda og veikinda starfsfólks sem kallar á meiri yfirvinnu og þar með aukinn kostnað.