Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á sérstökum hátíðarfundi í tilefni af 100 ára afmælis Vestmannaeyjakaupstaðar að halda áfram endurbótum á Ráðhúsi Vestmannaeyja við Stakkagerðistún með það að markmiði að húsið hljóti þann virðingarsess sem því sæmir og að innan veggja þess rúmist m.a. viðhafnarsalur og hluti safna Vestmannaeyjabæjar.  Undirbúningur, áætlanagerð og nánari tillögur um framtíðarhlutverk hússins verði kynnt bæjarbúum haustið 2019. Áætlað er að endurbótunum ljúki á þremur árum.

Hildur Sólveg Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi fygldi samþykktinni úr hlaði og fór yfir sögu og hlutverk Ráðhússins frá byggingu þess til dagsins í dag.
,,Húsið var byggt sem Sjúkrahús Vestmannaeyja og var tekið í notkun 1928. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni þáverandi húsameistara ríkisins og var bygging þess mikið átak á sínum tíma. Húsið var gert að Ráðhúsi Vestmannaeyjabæjar 1977 að loknum miklum endurbótum, en þá hafði engin starfsemi verið í húsinu frá upphafi Heimaeyjargossins 23. janúar 1973 og starfsemi Sjúkrahússins flutti í nýtt húsnæði haustið 1974. Húsið gegndi hlutverki ráðhúss til haustsins 2016.
Hildur Sólveig bar síðan upp hátíðarsamþykkt bæjarstjórnar sem var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.