Farþegar sem eiga pantað með Herjólfi 1-29. mars fengu tilkynningu frá Herjólfi í dag að öllum bókunum á þessum tíma hefði verið breytt í frá Vestmananeyjum til Þorlákshafnar, en ekki til Landeyjahafnar eins og fólk hafði bókað til. Gunnlaugur Grettisson framkvæmdastjóri Sæferða sagði í samtali við Eyjafréttir að það væri algjör óþarfi að gefa fólki falsvonir.

„Nýjustu mælingar sína 3 metra dýpi við garðana. Herjólfur þarf að minnsta kosti 4,2 metra dýpi. Eins og staðan er núna er enginn ástæða fyrir því að gefa fólki falsvonir, því það er útlit fyrir siglingar í Þorlákshöfn á næstunni.“

Til þess að dýpkun geti átt sér stað þarf sjö til tíu góða daga. „Ef það verður útlit fyrir gott veður og aðstæður breytast þá breytum við okkar plönum í takt við það og vonandi ná þeir að dýpka áður en nýja skipið kemur svo það geti hafið siglingar til Landeyjahafnar.“