Eng­ar ábend­ing­ar hafa borist um hvar Hrekkju­svín­in, eitt af verk­um Þor­bjarg­ar Páls­dótt­ur mynd­höggv­ara, eru niður­kom­in í dag. Þetta seg­ir Stefán Andrés­son, son­ur Þor­bjarg­ar, sem ný­lega aug­lýsti á Face­book-síðunni Gaml­ar ljós­mynd­ir eft­ir vís­bend­ing­um um af­drif verks­ins. Hrekkju­svín­in, sem sýn­ir tvo drengi hrekkja stúlku, var á úti­sýn­ingu á Skóla­vörðuholt­inu árið 1972 og var svo síðar þetta sama ár, sent ásamt öðrum verk­um til Nes­kaupstaðar og svo til Vest­manna­eyja sem hluti af átak­inu List um landið. „Við systkin­in höf­um séð mynd­ir af verk­inu á báðum stöðum en í dag vit­um við ekk­ert um verkið,“ skrif­aði Stefán í Face­book-fyr­ir­spurn sinni.

Stefán seg­ir í sam­tali við mbl.is í dag að hann hafi þó fengið eitt bréf frá konu sem hafi bent hon­um á gosið sem hófst í Vest­manna­eyj­um 23. janú­ar 1973. „Hún spurði hvort ekki gæti verið að verkið hefði bara farið und­ir hraun, hafi það enn verið í Eyj­um þegar það byrjaði að gjósa. Þetta er eins lík­leg skýr­ing og hver önn­ur og jafn­vel lík­legri,“ seg­ir Stefán og kveður það vissu­lega út­skýra af hverju ekk­ert hafi spurst til Hrekkju­svín­anna síðar.

„Það fer ekk­ert á milli mála ef þetta er ein­hvers staðar til, þá þarf ekk­ert að tékka á því hvort að mamma gerði það, því hún er ein­stök í heim­in­um,“ sagði Stefán í viðtali við mbl.is fyrr í mánuðinum og vís­aði þar til þess hversu auðkenn­an­leg­ar fíg­úr­urn­ar í verk­um móður hans séu. Hver og ein sé um 150-170 sm há. „Þannig að þetta er ekk­ert smá­verk,“ sagði hann þá.

Man eft­ir þeim á tún­inu í Eyj­um
„Kon­an sagðist hafa þekkt fólk í Vest­manna­eyj­um og það myndi ekki eft­ir því að þess­ar stytt­ur hefðu verið neins staðar ann­ars staðar en á tún­inu þar sem þær voru sýnd­ar,“ seg­ir Stefán. Verk­in komu til Eyja í ág­úst – sept­em­ber 1972 og því get­ur vel verið að það hafi ílengst þar fram í vet­ur­inn.

„Vor­um ein­hvern tím­ann að tala um hvort Hrekkju­svín­in hefðu komið aft­ur til Reykja­vík­ur með Rík­is­skip­um og það er eins eng­inn hafi hugsað um að senda verkið af stað,“ seg­ir Stefán og kveðst vissu­lega hafa kosið að frétta frek­ar af Hrekkju­svín­un­um inni í geymslu ein­hvers staðar.

„Við verðum þó lík­lega bara að kyngja því að þetta sé það sem hafi gerst. Það eru til mynd­ir af verk­inu og við vit­um að það fór til Eyja, en síðan er það bara týnt og tröll­um gefið.“

Sé ein­hverj­um kunn­ugt um af­drif Hrekkju­svín­anna er sá beðinn um að hafa sam­band við Stefán í gegn­um net­fangið [email protected].

Mbl.is greindi frá.