Landakirkja býður til sérstakrar tölvuleikjamessu sunnudagskvöldið 3. mars nk. kl. 20:00. Þemað eins og nafnið gefur til kynna eru tölvuleikir og tölvuleikjatónlist og mun Kór Landakirkju, Karlakór Vestmannaeyja, Sæþór Vídó og Thelma Lind Þórarinsdóttir flytja tónlist úr tölvuleikjum fyrir viðstadda undir stjórn Kitty Kovács organista.

Eins og vaninn er mun fulltrúi yngri kynslóðarinnar predika og er það æskulýðsleiðtoginn og sjálfboðaliðinn Ásgeir Þór Þorvaldsson í þetta skiptið. Ásgeir hefur til margra ára starfað af miklum krafti sem sjálfboðaliði í Æskulýðsfélagi Landakirkju og KFUM og K í Vestmannaeyjum ásamt því að vera einn af þeim leiðtogum sem leiða KSS starf sem er að ryðja sér til rúms í Landakirkju þessa dagana.

Sr. Viðar Stefánsson mun svo þjóna fyrir altari.

Allir velkomnir en ekki hvað!