Á fundi Bæjarráðs í gær var til umræðu útgjöld til markaðsmála fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum. Formaður stjórnar sem tekur ákvörðun um útgjöld til markaðsmála sem og annarra aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunnar, sbr. samþykkt bæjarráðs frá 14. janúar sl., gerði grein fyrir vinnu stjórnarinnar.

Stjórnin, sem skipuð er Páli Scheving og Berglindi Sigmarsdóttur frá ferðaþjónustunni og Angantý Einarssyni, fulltrúa Vestmannaeyjabæjar, mun greina þörfina og taka ákvörðun um útgjöld á vegum bæjarins til markaðsmála sem og annarra aðgerða til framdráttar ferðaþjónustunni og ráðstafa til þess 7,6 m.kr. fjárheimild sem veitt hefur verið til málaflokksins í fjárhagsáætlun 2019.

Af þeirri fjárhæð er áætlað að um 2 m.kr. verði ráðstafað til samstarfs við Markaðsstofu Suðurlands og um 1 m.kr. til reksturs upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn. Ráðgert er að öðrum fjárheimildum verði varið til beinna aðgerða í markaðsmálum fyrir ferðaþjónustuna. Gerður verði samningur við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja um fyrirkomulag úthlutunar.