Stelpurnar í meistaraflokki ÍBV í handbolta urðu að láta í minni pokann fyrir Valsstúlkum í undanúrslitum Coca-cola bikarsins nú fyrir stundu.

Valsstúlkur byrjuðu betur og höfðu yfirhöndina nánast allan leikin. Góð vörn Eyjastúlkna og stórleikur Guðnýjar Jenný í markinu hélt þeim þó í skefjum þannig að úr varð leikur. Sóknarleikur ÍBV var hinsvegar ekki uppá marga fiska. Sér í lagi í fyrri hálfleik, staðan í hálfleik 5-9 Valsstúlkum í vil.

ÍBV byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og jöfnuðu leikinn 11-11 um miðbik síðari hálfleiks og héldu í við Val næstu mínúturnar. Tíumínutur til leiksloka og staðan 12-13 Val í vil. En fleiri mörk skoruðu Eyjastúlkur ekki og því fór sem fór. Lokastaðan 12 – 17 og bikardraumur ÍBV úti.

Guðný Jenný var langbesti leikmaður ÍBV í kvöld, átti stórleik í markinu með 18 mörk varin, þar af eina víti.
Markahæstar í liði ÍBV voru Arna Sig Pálsdóttir og Sunna Jónsdóttir með þrjú mörk. Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði úr tveimur vítum. Karolína Bæhrenz Lárudóttir, Greta Kavaliauskaite, Kristrún Hlynsdóttir og Ester Óskarsdóttir skoruðu eitt mark hver.