Suðurland er að mörgu leyti orðið þroskað ferðamannasvæði enda löng hefð fyrir móttöku gesta í landshlutanum og Sunnlendingar þekktir fyrir gestrisni. Ferðamenn sem fara um Suðurland eru stórt hlutfall af heildarfjölda ferðamanna sem koma til landsins. Árið 2018 var heildarfjöldi ferðamanna til Íslands um 2,3 milljónir og af þeim komu um 1,7 milljónir á Suðurland. Talsverður munur er þó á milli svæða innan landshlutans þar sem sum svæði fá mikinn fjölda ferðamanna á meðan önnur svæði fá tiltölulega fáa gesti.

Oft heyrist að fjöldi ferðamanna á Íslandi og sérstaklega á ákveðnum ferðamannastöðum sé orðinn of mikill og þá vaknar spurningin, er Ísland orðið uppselt? Sum svæði eru eflaust orðin þétt setin á ákveðnum tímum eða tímabilum. Rannsóknir hafa verið gerðar á félagslegum áhrifum ferðamennsku á samfélagið og sýna þær að þrátt fyrir að sumstaðar kvarti heimamenn yfir of mörgum ferðamönnum þá finnst þeim á sama tíma ferðaþjónusta mikilvæg fyrir þróun atvinnulífs og byggðar. Einnig hafa komið fram vísbendingar í rannsóknum, á þolmörkum ferðamanna á ákveðnum ferðamannastöðum, að fjöldi ferðamanna sé farinn að hafa áhrif á upplifun þó svo almennt finnist ferðamönnum fjöldi annarra ferðamanna hæfilegur.

Á Suðurlandi eru fjölmargir staðir og svæði sem fá tiltölulega fáa gesti og þar er árstíðarsveiflan ennþá mikil. Þessi munur á milli svæða, innan landshlutans, er ekki endilega tengdur nálægð við höfuðborgarsvæðið eða flugvöllinn í Keflavík. Töluverður munur er t.d. á fjölda ferðamanna í Uppsveitum Árnessýslu, þar sem mikill fjöldi ferðamanna fer Gullna hringinn, og í Ölfusi eða Flóahreppi en allt eru þetta svæði í svipaðri fjarlægð frá flugvellinum og höfuðborgarsvæðinu. Eins er hægt að nefna muninn á Vík, sem er vinsæll áfangastaður ferðafólks, og Þykkvabæ eða Vestmannaeyjum þar sem fjölmörg tækifæri felast í aukningu í fjölda ferðamanna.

Það er mikilvægt að styrkja Suðurland sem ferðamannasvæði í heild sinni til þess að styðja við jafnari dreifingu ferðamanna í landshlutanum. Byggja þarf upp ferðaleiðir og ferðamannastaði sem geta tekið á móti fleiri gestum en einnig þarf að setja fram virka stýringu á fjölmennustu ferðamannastöðunum. Hægt er að gera það með ýmsu móti, til dæmis með bættu skipulagi á staðnum eins og uppbyggingu göngustíga eða staðsetningu bílastæða. Á sumum stöðum getur verið þörf fyrir aðgangsstýringu eins og lokanir/takmarkanir vegna ágangs eða stýra dreifingu gesta yfir daginn.


Markaðsstofu Suðurlands er hluti af stoðkerfi ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Tilgangur hennar er m.a. að hafa yfirsýn, gæta hagsmuna og veita upplýsingar um atvinnugreinina. Þessi grein er liður í að efla umræðu og fræðslu um áhrif ferðaþjónustu á svæðinu.