Þungt högg fyrir sjávarútveginn

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknarstofnum var með erindi í Þekkingarsetrinu í janúar um loðnu.

Allri formlegri leit að loðnu fyrir þessa vertíð hefur verið hætt. Þetta var ákveðið á fundi Hafrannsóknastofnunar með útgerðum loðnuskipa í gær. Þetta þýðir að Hafrannsóknastofnun mun ekki leggja til að gefinn verði út loðnukvóti fyrir vertíðina.

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá stofnuninni, sagði við RÚV í gær að ef það berist einhverjar fréttir af loðnugöngum, sem gefi afgerandi vísbendingar, verði auðvitað brugðist við því. „En það þarf eitthvað stórt að gerast til að svo verði og orðnar ákaflega litlar líkur á því,“ sagði hann.

Loðnubrestur kostar ríkið 4-5 milljarða króna
Samkvæmt RÚV má ætla að ríkissjóður verði af fjórum til fimm milljörðum króna nú þegar ljóst er að engar loðnuveiðar verða á þessari vertíð. Talsmaður sjávarútvegsfyrirtækja segir þetta þungt högg fyrir sjávarútveginn og fjölda byggðarlaga. Þá sé kolmunnavertíðin í uppnámi þar sem ósamið sé um aðgang að færeyskri lögsögu.

Fara yfir fjárhagsleg áhrif loðnubrests
Ljóst er að engin loðnuvertíð er þungt högg fyrir mörg sveitarfélög og þar á meðal Vestmannaeyjar. Á fundi bæjarstjórnar 2.mars lýsti bæjarstjórn yfir verulegum áhyggjum sínum á stöðu mála og var ákveðið að láta fjármálastjóra sveitarfélagsins fara yfir fjárhagsleg áhrif yfirvofandi loðnubrests og meta hvort að forsendurbrestur sé fyrir tekjuáætlun fjárhagsáætlunar aðalsjóðs og hafnarsjóðs.