Bakskólinn á erindi við marga

Hildur Sólveig Sigurðardóttir sjúkraþjálfari

Hildur Sólveig Sigurðardóttir sjúkraþjálfari hefur frá því í nóvember á síðasta ári starfrækt bakskóla í Eldeyjarsalnum í Goðahrauni en hún er að ljúka fimmta námskeiðinu í næstu viku og hafa um 40 einstaklingar nú þegar setið námskeiðið hjá henni.

Aðspurð um skólan sagði Hildur Sólveig að Bakskólinn væri fjögurra vikna námskeið sem er uppsett af 2 tímum í vikum, c.a. 45-50 mínútum í senn. „Í upphafi hvers tíma eða í c.a. 15 mínútur er farið yfir ýmis konar fróðleik sem skiptir máli þegar verið er að kljást við bakverki, þ.á.m. líffærafræði hryggjar, góða líkamsstöðu og líkamsbeitingu, æskilegar vinnustellingar, einföld ráð til sjálfshjálpar, æskileg æfingaform til framtíðar og ýmsan áhugaverðan fróðleik um mannslíkamann. Þar á eftir er farið í markvissa líkamsstöðu- og líkamsbeitingarþjálfun ásamt styrktarþjálfun fyrir djúpu kvið- og bakvöðvana, liðkandi æfingar fyrir bakið, jafnvægisþjálfun og teygjur.“ Bakskólinn hentar vel einstaklingum sem hafa fundið fyrir bakverkjum, hvort sem er skamm- eða langvinnum. „Bakskólinn er upphaflega byggður á forvarnarfræðslunni Leiðarvísir líkamans sem ég hef unnið lengi að bæði fyrir elstu nemendur Grunnskólans í Vestmannaeyjum og við ráðgjöf til hinna ýmsu félagasamtaka og fyrirtækja,“ sagði Hildur Sólveig.

Þróaði úrræðið eftir að biðlistarnir fóru að lengjast
Af hverju fórst þú af stað með þetta verkefni? Við Anna Hulda Ingadóttir sjúkraþjálfari vorum fyrir ansi mörgum árum síðan með bakleikfimi í húsnæði Hressó, þar vorum við fyrst og fremst með æfingar fyrir góða líkamsbeitingu og styrkingu djúpu kvið- og bakvöðvanna. Það úrræði lognaðist út af og hef ég í langan tíma haft áhuga á að endurvekja það. Þegar biðlistarnir hjá okkur tóku að lengjast ákvað ég að prófa að þróa þetta úrræði og hafa viðtökurnar verið virkilega góðar. Ég lagði upphaflega upp með að hafa fræðsluna bara í fyrsta tímanum en með því að gefa nemendunum hluta fræðslunnar alltaf í upphafi hvers tíma er líklegra að það sitji frekar eftir en að ætla að demba allri fræðslunni í einum og sama tímanum.

Aðalbókari

Líklegt að erindi námskeiðsins eigi erindi við ansi marga
Viðtökurnar hafa verið góðar, eru þá bakvandamál algeng? Rannsóknir sýna að 75-80% fólks fær bakverki einhvern tímann á lífsleiðinni en helstu áhættuþættir bakvandamála eru m.a. ofþyngd, meðganga, slæm líkamsstaða, slæm vinnuaðstaða, slæmt mataræði, hreyfingarleysi, reykingar og erfðir. Þetta hlutfall á við jafnt í Vestmannaeyjum og annars staðar og því nokkuð líklegt að erindi námskeiðsins eigi erindi við ansi marga.

Skólinn er í sífelldri þróun og endurskoðun
Verður bakskólinn starfræktur allt árið? Ég geri ráð fyrir því að bakskólinn verði starfræktur á meðan eftirspurn er til staðar og hann er í sífelldri þróun og endurskoðun en ég fæ mikla og góða endurgjöf frá nemendunum sem ég reyni að nýta eftir fremsta megni til að breyta og bæta eins og kostur er. Ég hef einnig boðið upp á framhaldsnámskeið þar sem áhersla er eingöngu á æfingahlutann og reikna ég með að bjóða upp á slíkt úrræði áfram.

 

Umsögn nemenda námskeiðanna:

Guðný Halldórsdóttir – Eftir alltof marga mánuði með mikla bakverki og bólgur í stórum parti af líkamanum tók ég þátt í fyrsta námskeiðinu í bakskólanum hjá Hildi Sólveigu. Það var virkilega góð ákvörðun því þar fékk ég frábæra fræðslu um bakið, bakverki, líkamsstöðu, líkamsbeitingu og fleira ásamt því að við gerðum æfingar þar sem tekið var vel fyrir djúpu kviðvöðvarnir sem er okkur svo mikilvægt að styrkja. Þetta námskeið gerði mjög mikið fyrir mig og auðveldaði mér að komast af stað aftur í líkamsrækt og þekkja betur mín mörk miðað við heilsufar.
Ég myndi bara helst vilja að allir færu á þetta námskeið hjá henni Hildi Sólveigu, þó það væri aðeins til að reyna að fyrirbyggja bakvandamál til framtíðar, allir hafa gott af því að fá þessa fræðslu og leiðbeiningar um rétta líkamsstöðu og hvernig við beitum líkamanum okkar. Allt var mjög vel útskýrt fyrir okkur hvort sem það var í máli, myndum eða í æfingum.

Hafþór Jónsson – Væntingar mínar voru engar þegar námskeiðið byrjaði. Ég taldi mig vita allt sem þurfti til að halda bakinu góðu, bæði hvað varðar líkamsstöðu sem og þær æfingar sem hægt væri að gera til að styrkja bakvöðvana. Ég hafði heldur betur rangt fyrir mér, í bakskólanum var mér kennt að styrkja vöðva sem ég vissi ekki einu sinni af en gegna mjög mikilvægu hlutverki í að halda skrokknum góðum. Líkamsstaðan mín var kolröng og æfingarnar sem ég kunni mjög fáar og meira að segja ekki einu sinni rétt gerðar. Ég hef því lært mjög mikið í þessum skóla og mæli eindregið með honum fyrir alla, það hefðu allir gott af því að læra hvernig á að hugsa betur um bakið sitt.

 

04 – uppbyggingasjóður

Mest lesið