Sinnuleysi Vegagerðar skerðir lífsgæði og atvinnutækifæri Vestmannaeyinga

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Samgöngur eru án efa eitt allra stærsta hagsmunamál samfélagsins okkar. Á vörum allra bæjarbúa heyrast sömu spurningar þessa dagana, hvenær opnar höfnin? Enda ekki skrítið, Landeyjahöfn hefur verið stórkostlegt framfaraskref fyrir Vestmannaeyjar og tækifærin fyrir samfélagið hafa vaxið stórkostlega með tilkomu hennar. Um leið og Landeyjahöfn opnast eykst straumur ferðamanna margfalt og lífsgæði eyjaskeggja aukast til muna. Skal því engan undra eftirvæntingu heimamanna.

Dýpkun tekur of langan tíma
Samfélagið hefur beðið óþreyjufullt eftir aðgerðum Vegagerðar varðandi dýpkunarmál, loks var samið við Björgun um aukadýpkun til að opna höfnina sem allra fyrst en eitthvað virðast þær framkvæmdir því ver og miður ganga frekar hægt og enn er Herjólfur að sigla til Þorlákshafnar.

Ferjan tilbúin til afhendingar
Í fjölmiðlum fáum við svo fregnir af því að nýja ferjan okkar sem tryggir mun betri nýtingu Landeyjahafnar og beðið hefur verið eftir í raun frá opnun hennar er tilbúin til afhendingar. En áfram fáum við að bíða, fulltrúar Vegagerðarinnar ætla skv. fjölmiðlum til Póllands í næstu viku að ganga frá lokauppgjöri. Þetta þykja mér kaldar kveðjur til Vestmannaeyinga, af hverju í ósköpunum er beðið fram í næstu viku, af hverju er ekki búið að ganga frá þessu? Af hverju eru þessir fulltrúar Vegagerðarinnar ekki í Póllandi í dag? Af hverju mega Vestmannaeyingar halda áfram að bíða?

Er biðlund Vestmannaeyinga ótæmandi auðlind?
Loðnubrestur virðist óumflýjanleg staðreynd nú þegar loðnuleit er hætt. Það hefur miklar afleiðingar fyrir atvinnustarfsemi og bæjarbúa. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein í Vestmannaeyjum og stendur og fellur með samgöngum. Með mannanna verkum er nú verið að skerða tækifæri m.a. þeirrar atvinnugreinar og lífsgæði íbúa. Það er fullkomlega ólíðandi að samfélaginu okkar séu sýnd þau skilaboð að við getum bara beðið.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum