Bjarni Ólafur Guðmundsson eða Daddi eins og við þekkjum hann flest hefur ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Mary Ólafsdóttur rekið Veislu,- dans og ráðstefnuhúsið Höllina síðustu níu ár, en nú er ballið búið.

„Við Guðrún ákváðum að láta það gott heita í Höllinni. Þetta hafa verið mjög skemmtileg 9 ár, með góðu fólki og viljum við Guðrún fyrst og síðast þakka því öllu fyrir þeirra framlag.  Þetta er oft og tíðum nokkuð mikið álag á það góða fólk sem stendur í framvarðasveitinni og veitir okkar viðskiptavinum þjónustu. Reksturinn hefur verið nokkuð strembinn á köflum, en ég er sannfærður um það að nýtt fólk í brúnni getur látið þetta ganga mjög vel.  En til þess þarf samt hugarfarsbreytingu í samfélaginu.  Ég myndi vilja sjá meiri nýtingu á húsinu og við Einar höfum oft rætt um það.  Fyrirtæki og stofnanir í bænum mættu nýta húsið betur að okkar mati, í stað þess að fara í sali sem reknir eru af félagasamtökum eða íþróttafélögum.  Það er erfitt að vera í samkeppni við félagasamtökin og ekki bætir úr skák þegar bærinn sjálfur er kominn í samkeppni og leigir Eldheima út fyrir afmæli, brúðkaup og tónleika. Eldheimar hafa verið okkar flaggskip í ferðþjónustunni, en þetta er gosminjasafn með kaffihúsi,“ sagði Daddi.

Daddi á spjalli við gesti á jólahlaðborði í Höllinni.

Það eru tækifæri
Daddi segir að það sé mjög bjart framundan og segir að það sé hellingur af tækifærum í Höllinni fyrir nýja aðila. „Framundan eru bjartari tímar að okkar mati, nýr Herjólfur, nýir Sæheimar og nýir íbúar í Klettsvíkina. Þetta þrennt ætti að auka möguleika Hallarinnar og ég veit að Einar Björn, Sigurjón Aðalsteins og fleiri eru sammála okkur í því að það eru tækifæri fyrir Höllina í öllu þessu,“ sagði Daddi.

Á sjómannadags skemmtun í Höllinni.

Ekkert öðruvísi en hjá sjómanni
Daddi er búin að snúa sér að öðrum verkefnum og hefur hafið störf hjá Árvakri. „Ég er farinn að vinna hjá Árvakri, vinnu sem mér hefur alltaf þótt svo skemmtileg, að selja. Ég fer á milli lands og Eyja en það er bara það sem þarf og er ekkert öðruvísi en hjá sjómönnunum okkar.  Svo höldum við áfram sem umboðsmenn MBL í Eyjum og einnig er engan bilbug á okkur að finna við að skipuleggja Eyjatónleikana, sem verða 25.janúar á næsta ári.  Að auki erum við Jón Ólafsson að aðstoða Jóhann Helgason með 70 ára afmælistónleika hans, sem haldnir verða í Hörpu þann 19.október næstkomandi.“

Daddi og Einar Björn við Jólahlaðborð Einsa kalda og Hallarinnar sem hefur verið órjúfandi partur af jólahaldi margra Eyjamanna.

Vonar að reksturinn haldi áfram
Daddi er tilbúin að vera til taks fyrir nýtt fólk í Höllinni ef áhugi sé fyrir því. „Ég vona allavega innilega að rekstur Hallarinnar verði áfram til staðar, þ.e. að Höllin verði til staðar sem menningarhús okkar Eyjamanna.  Því hvar annarsstaðar ætlum við að halda Sjómannadaginn hátíðlegan, Lundaballið, hvar annarsstaðar er rými fyrir stórar erfidrykkjur, stærri árshátíðir, ættarmót og matarþjónustu fyrir stóru íþróttamótin okkar og ýmsar stórar samkomur, sem mögulega munu koma til með enn betri samgöngum,“

„Eyjamenn og að mínu mati stjórnendur Vestmannaeyjabæjar þurfa að spyrja sig þeirrar spurningar.  Viljum við missa Höllina?,“ sagði Daddi að endingu.

Þær hafa ófáar glæsi veislurnar farið fram í Höllinni í gegnum tíðina.