Jóhann Jónsson, Jói listó, varð sjötugur í febrúar 2018. „Ég var talsvert áður búinn að viðra þá hugmynd við Kára Bjarnason, forstöðumann Safnahússins hvort það væri ekki við hæfi að efna til afmælis- og heiðurssýningar um listamanninn, því það eru rúm 20 ár síðan hann hélt einkasýningu síðast. Kári var til í það um leið en það tók Jóa aðeins lengri tíma að spila með en hann vill hvorki kalla sýninguna afmælis- né heiðurssýningu,“ segir Gunnar Júlíusson, Eyjamaður og myndlistarmaður sem tók skrefið alla leið og er nú á fullu að setja upp sýninguna með Jóa í Einarsstofu í Safnahúsi. Sýningin verðu opnuð í dag fimmtudag kl. 17.30.

Gerir miklar kröfur
Jói Listó er ekki margorður um sjálfan sig eða eigin afrek. Hann er í hópi Eyjamanna sem náðu að skapa sér nafn í myndlistinni á síðustu öld. Á löngum ferli hefur hann tekið nokkrar u-beygjur og vekur athygli á því að hann hefur ekki málað vatnslitamynd í um 20 ár. Það voru einmitt vatnslitamyndirnar sem hann varð þekktastur fyrir en það er sama hvað hann gerir, það er aldrei slegið af kröfunum sem er hans helsta einkenni sem listamanns. Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt á samsýningum og verk eftir hann er að finna víða um heim. Þá hefur Jói komið að hönnun frímerkja.

30 sýningar
„Ég tók einhvern tímann saman skrá um sýningar sem ég hef haldið eða komið nálægt en get ómögulega fundið hana núna,“ segir Jói þegar hann er spurður hvar sýningin í Einarsstofu er í röðinni. „Ætli þær séu ekki orðnar um 30, einkasýningarnar og samsýningarnar sem ég hef tekið þátt í. Myndirnar sem ég sýni núna eru úr einkasöfnum en myndir eftir mig er að finna í ellefu til tólf löndum, í fjórum heimsálfum. Það kemur kannski mörgum á óvart að ég hef ekkert málað í 20 ár en hef sjaldan haft eins mikið að gera. Ég er áfram að vinna í myndlist en á allt öðrum vettvangi. Ekki síðri og hef ég upplifað það sem mikið ævintýri,“ segir Jói sem hefur undanfarin ár m.a. komið að fjölmörgum verkefnum sem snúa að öryggismálum sjómanna. Segist hann ánægjulegt að sjá að slysum á sjó hefur fækkað á undaförnum árum.

Stoltur og ánægður
„Ég er rosalega ánægður og stoltur að hafa fengið að vera með í þessu verkefni, sem eru öryggismál sjómanna. Þarna finnst mér ég hafa haft hlutverk, þó það sé ekki stórt, í verki sem hefur skilað árangri.“ Jói segist hafa fylgst með stofnun Slysavarnaskóla sjómanna árið 1985 og því öfluga starfi í öryggismálum sjómanna sem unnið var í Eyjum á þessum árum. Í framhaldi af stofnun skólans var stofnuð Verkefnanefnd um öryggi sjófarenda að frumkvæði samgönguráðuneytisins. Verkefnin voru í umsjón Siglingastofnunar, síðar Samgöngustofu.

Ómetanlegt tækifæri
„Á einhverjum fundi nefndarinnar kom fram leiðbeiningaspjald sem ég hafði gert fyrir Friðrik Ásmundsson og Sigmar Þór Sveinbjörnsson, mikla áhugamenn um öryggismál sjómanna. Á spjaldinu, sem sett var um borð í skip voru sýnd merki sem lúgumenn áttu að gefa kranamönnum við lestun og losun skipa.

Á fundinum spyr einhver, hver gerði þetta spjald? Þetta var haustið 2001. Ég var í framhaldinu kallaður til og það var gerður verksamningur sem við undirrituðum.“ Þetta hefur verið viðamikið verk en heldur hefur dregið úr því á seinni árum. „Það er ómetanlegt að fá svona tækifæri og vera hluti af einhverju sem skiptir virkilega máli. Það hefur einnig verið gaman að koma að hönnun og gerð frímerkja og skreytinga fyrir Póstinn en sýnishorn af þeim verður að finna á sýningunni.“

Fjölbreytt sýning
Á sýningunni í Einarsstofu ætlar Jói að sýna vatnslitamyndir og sýnishorn af öðru sem hann hefur verið að gera. „Vatnslitamyndirnar voru sannkallað blómatímabil á mínum ferli. Mikið ævintýri og þær seldust eins og heitar lummur en svo komu nýir tímar. Það verða ekki margar myndir í ramma en í skápum sýni ég m.a. ýmsar bókakápur sem ég hef gert og frumyndir af sex frímerkjum með selum sem ég hannaði að öllu leyti. Auk þess hef ég komið að gerð frímerkja með öðrum og er Hlynur Ólafsson meðal þeirra. Á skjá verður um 30 mínútna mynd með svipmyndum af því þegar ég málaði stóru myndina af Bylgju VE 75 árið 1988 og prýddi austurgaflinn á Magnahúsinu. Einnig eru svipmyndir frá því þegar ég var að vinna að minni síðustu sýningu sem ég hélt í Reykjavík 1997. Einnig verða á veggjum og í möppum ljósmyndir og teikningar sem sýna hvað ég hef verið að gera í gegnum árin,“ segir Jói.

Tími til kominn
Gunnar segist lengi hafa fylgst með listaverkunum hans Jóa og notið þess að skoða þau vandlega og hafi hann saknað þess að sjá þau ekki á sýningum. „Mér finnst vera kominn tími til að draga þau aftur fram í dagsljósið og vekja athygli á hversu fjölbreyttur, metnaðarfullur og vandvirkur Jói er sem listamaður. Svona breidd er sjaldséð,“ segir Gunnar.

Ótrúlegur ferill og fjölbreyttur
„Jói Listó er hvað þekktastur fyrir vatnslitamyndir sínar þar sem hann tekur tímann fyrir og að allir hlutir eru forgengilegir. Það er líka oft húmor og ádeila í verkum hans. En hann er ekki síðri á fjölmörgum öðrum sviðum listarinnar. Auk vatnslitamyndanna hefur hann teiknað, hannað og málað eintóna og tvítóna blekmyndir, penna- og punktateikningar og blýantsmyndir, olíuverk, umhverfisgrafík, risastór útilistaverk og auglýsingaskilti, merki fyrir fjölda viðskiptavina, myndskreytingar fyrir Íslandspóst, sem hafa ratað á frímerki og fyrsta dags umslög og myndskreytingar og tæknimyndir í fjöldamörg ár fyrir Siglingastofnun og Lýðheilsustofnun.
Vandaðir og sjaldséðir skúlptúrar hans koma líka skemmtilega á óvart þar sem húmorinn skín í gegn. Hann er einnig liðtækur ljósmyndari með næmt auga á myndbyggingu og hefur deilt flottum ljósmyndum á netið í áraraðir.“ Gunnar segist með þessari sýningu vilja sýna og kynna aftur hversu afburða listamaður Jói Listó er, ef einhver hafi ekki þegar búinn að átta sig á því. „Og vonandi nær yngri kynslóðin að kynnast verkum hans og njóta þeirra um ókomin ár. Við þurfum að sjá til þess,“ segir Gunnar að endingu.