Þann 9. mars síðastliðinn var trommað til styrktar Krabbavarna í tilefni af Mottumars. Viðar Stefánsson prestur í Landakirkju stjórnaði tímanum ásamt Siggu Stínu og sagði í samtali við Eyjafréttir að tíminn hefði farið fram úr hans björtustu vonum. Sigga Stína viðraði þá hugmynd í tíma fyrir jól að hún vildi hafa stóran POUND-tíma í mars vegna mottumars. Eftir það lá sú hugmynd í dvala í nokkurn tíma. Það vildi þó svo til að einn daginn spurði ég hana hvort  hún stefndi ekki enn að því að hafa stóran POUND tíma eins og hún hafði einu sinni nefnt. Þá byrjaði boltinn að rúlla og hugmyndin varð sú að hafa stóran tíma í mars í tengslum við mottumars og að hann yrði haldinn í AKÓGES,“ sagði Viðar.

Ég hef nú gaman að áskorunum og því sló ég til
Viðar byrjaði í POUND-leikfimi hjá Siggu Stínu fyrir einu ári síðan. „Ég komst í kynni við POUND-ið þegar karlakórsbróðir minn var að ræða þessa leikfimi og þar sem ég tromma sjálfur vakti það eðlilega áhuga minn. Ég sló til, mætti í minn fyrsta tíma og hef ekki hætt síðan og þar sem ég hef mætt ötullega í tíma þá datt Siggu Stínu í hug að fá mig
með sér því þá væri bæði karl og kona með tímann. Hún benti á að ég gæti verið “hvati fyrir karla til að mæta” eins og hún orðaði það sjálf og um leið minnt á krabbamein í körlum sem er jú það sem mottumars gengur út á. Ég hef nú gaman að áskorunum og því sló ég til. Í tímunum í vikunni fyrir AKÓGES-tímann sá ég að hluta til um æfingarnar í staðinn fyrir Siggu Stínu og það var mjög gaman,“ sagði Viðar.

Söfnuðu 100.000kr
„Svo var komið að tímanum í AKÓGES sem fór fram úr okkar björtustu vonum.
Við fylltum AKÓGES og fólk á öllum aldri mætti til að tromma sig í gott form og styrktu um leið Krabbavörn hér í Eyjum. Stemningin var mjög góð enda fullur salur og allir áhugasamir fyrir æfingunum sem margir hverjir voru að prófa í fyrsta skipti. Við söfnuðum um 100.000kr. fyrir Krabbavörn með þessu móti og allt gekk mjög vel,“ sagði Viðar.

Sú hugmynd hefur vaknað að gera þetta aftur einhvern tímann síðar og þá mögulega í október. „Þá held ég reyndar að við þyrftum stærra húsnæði en skemmtanagildið verður alveg hið sama,“ sagði Viðar að endingu.