ÍBV íþróttafélag sendi bæjarráði erindi þar sem óskað var eftir því við bæjarráð að flytj fjármagn vegna framkvæmda sem samþykktar voru í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2019, frá Týsheimili yfir í stúkuna við Hásteinsvöll. Markmiðið er áfram að endurbæta aðstöðu leikmanna, dómara og starfsfólks í tengslum við knattspyrnuleiki á Hásteinsvelli, en þeirri aðstöðu verði komið fyrir í stúkunni í stað Týsheimilisins. Bæjarráð samþykkti í vikunni að flytja fjárveitingu sem áætluð var til framkvæmda í Týsheimilinu, til framkvæmda í stúkunni. Ekki er verið að óska eftir viðbótarfjárheimild í fjárhagsáætlun 2019. Samþykktin er með fyrirvara um að ÍBV íþróttafélag og Vestmannaeyjabær geri með sér eignaskiptasamning sem felur í sér eignarhald bæjarins á stúkunni í framtíðinni. Bæjarráð leggur áherslu á að fjölskyldu- og tómstundaráð taki í framhaldi upp framtíðarskipulag og uppbyggingu íþróttamannvirkja í Vestmannaeyjum. Þetta var samþykkt með tveimur atkvæðum H lista og E lista. Fulltúi D lista sat hjá.

Staldra við og óska eftir afstöðu fagráða á þessari stefnubreytingu
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá og bókaði að hann fagni þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað á íþróttasvæðum Vestmannaeyjabæjar undanfarin ár, sú uppbygging hefur kostað mikla fjármuni enda málstaðurinn góður og starfið öflugt. „Í núverandi fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir fjármagni í endurbætur á Týsheimilinu sem er húsnæði í eigu Vestmannaeyjabæjar. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var fylgjandi þeirri stefnu að fara í þær lagfæringar sem til stóð að fara í á búningsklefum og öðru í húsnæðinu nýlega var t.d. skipt um þak á Týsheimilinu. Í ljósi fyrirspurnar ÍBV um að færa fjármagn á milli liða úr viðhaldi Týsheimilis í eign sem á nú að skrá á Vestmannaeyjabæ, er nauðsynlegt að staldra við og óska eftir afstöðu fagráða á þessari stefnubreytingu. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er sammála því að mikilvægt er að fyrirhuguð stefnubreyting komi til umræðu í fjölskyldu- og tómstundaráði enda eðlilegt að heildarstefnumótun eigi sér stað um svæðið til framtíðar og að afstaða framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyjabæjar til framkvæmdarinnar liggi fyrir. Í minnisblaði sem fylgir með málinu kemur fram að verði Týsheimilið rifið vegna stækkunar á knattspyrnuhúsinu verði væntanlegar eftirstöðvar af bókfærðu verði hússins afskrifaðar sem er á bókfærðu verði síðasta árs 57,6 milljónir.

Þar sem afstaða fagráða liggur ekki fyrir og umræða hefur enn ekki farið fram þar, er erfitt að taka afstöðu til málsins að svo stöddu. Þar sem spurningum á borð við heildarstefnumótun svæðisins, framtíðarhlutverk Týsheimilisins, heildarkostnað og fjármögnun framkvæmdarinnar er ósvarað. Við framkvæmdina er verið að tvöfalda rekstrarkostnað Vestmannaeyjabæjar við rekstur húsnæðis Týsheimilis og stúku, o.s. frv. Mikilvægt er að huga vel að auknum rekstrarkostnaði þegar ákvörðun um slíkar framkvæmdir er að ræða,“ segir í bókun sem Trausti Hjaltason fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skrifar undir.

Dóra Björk Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ÍBV

Búningsklefarnir uppfylla ekki leyfiskerfi KSÍ
Dóra Björk Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ÍBV sagði í samtali við Eyjafréttir að eftir vel ígrundað mál væri á allan hátt skynsamlegra að fara í uppbyggingu við stúkuna. „Búningsklefarnir sem eru í Týsheimilinu í dag uppfylla ekki leyfiskerfi KSÍ og þarf að fara í endurbætur á þeim. Í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2019 var samþykkt að setja 50 milljónir í að bæta aðstöðuna í Týsheimilinu og gefið vilyrði fyrir að setja 50 milljónir í verkið 2019, 2020 og 2021,“ sagði Dóra Björk.

Upp komu vandamál
Á félagsfundi hjá ÍBV í haust var fyrirhuguð framkvæmd í Týsheimilinu kynnt en þá var búið að frumhanna aðstöðuna í húsinu. „Þegar vinna við lokahönnun var lokið í upphafi þessa árs komu í ljós nokkur vandamál. Eins og til dæmis hæðamismunur á gólfi á milli bygginga (húsið er byggt í nokkrum áföngum) og þyrftum við því að brjóta niður gólf sem væri mjög kostnaðarsöm framkvæmd. Þetta fékk okkur til að hugsa þetta upp á nýtt og vildum við alls ekki fara í verkefnið, nema það væri einhugur um að þetta væri það eina rétta í stöðunni“ sagði Dóra Björk

Að við værum ekki að horfa fram á veginn
Í byrjun árs funduðu fulltrúar frá ÍBV, fulltrúar framkvæmdasviðs bæjarins, fulltrúar Teiknistofunnar og framkvæmdanefnd félagsins. „Þar spurði ég hvort menn væru ekki 100% vissir um að þetta væri framkvæmd sem myndi nýtast okkur til framtíðar, því ég vildi ekki vera í forsvari fyrir framkvæmd sem við værum ekki viss um að væri sú skynsamasta. Ég hafði fengið ábendingar frá félagsmönnum um að með framkvæmdum í Týsheimilinu værum við ekki að horfa fram á veginn. Á þessum fundi var ákveðið að fá Teiknistofuna til að búa til gróflega kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina í stúkunni því við vildum sjá hvort kostnaðurinn væri svipaður,“ sagði Dóra Björk

Stúkan framtíðarlausn
Hópurinn hittist aftur 21. janúar þar sem Teiknistofan skilaði frumteikningum, „þar voru allir sammála um að sú framkvæmd væri meiri framtíðarlausn fyrir okkur með tilliti til framtíðarskipulags á svæðinu og ábendingar mannvirkjasjóðs KSÍ um að betra væri að hafa búningsklefana í stúkunni,“ sagði Dóra Björk. Þá var ákveðið að fara í frekari útreikninga á framkvæmdinni og sagði Dóra Björk að fulltrúar ÍBV hafi komið með ábendingar um það sem betur mátti fara til þess að henta betur starfssemi félagsins.

Vildum gera þetta þannig að allir væru sáttir
Formaður framkvæmdanefndar, framkvæmdastjóri ÍBV og framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs fengu óformlegan fund með bæjarstjórn í lok febrúar þar sem farið var yfir málið. „Við sögðum frá því bakslagi sem hafði komið í framkvæmdina þar sem menn voru ekki 100% vissir um að þetta væri rétt ákvörðun, menn sögðust ætla að gefa sér nokkra daga í að hugsa þetta en við vorum mjög skýr með það að við vildum gera þetta þannig að allir væru sáttir. Ég fór yfir það að ekki væri búið að halda félagsfund því vilji væri að vinna þetta í samstarfi við eigendur íþróttamannvirkjanna og svo í framhaldinu að kynna þetta fyrir félagsmönnum. Auðvitað vorum við búin að ræða þetta innan okkar hóps en fyrirhugað er að halda félagsfund í næstu viku um þessa breytingu á framkvæmdinni,“ sagði Dóra Björk.

Þessi umræða er ekki ný
„Við vildum ekki taka ákvörðun til framtíðar sem gæti staðið í vegi fyrir uppbyggingu á íþróttasvæði félagsins. Þegar ákveðið var að hækka stúkuna á sínum tíma þá samþykkti bærinn þá framkvæmd til þess að hægt væri að vera með búningsklefa félagsins undir stúkunni. Þessi umræða er því ekkert ný og hefur stefnan alltaf verið að fara með búningsklefana þangað,“ sagði Dóra Björk að endingu.