Krafa pólsku skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A í Póllandi um viðbótargreiðslur fyrir smíði Herjólfs komu forstjóra Vegagerðarinnar algjörlega óvænt. Hún segir að krafan hafi borist á lokametrunum. Á þessari stundu er allt óljóst um það hvaða áhrif krafan hefur á það hvenær skipið verður afhent, segir í frétt hjá RÚV.

Smíði skipsins er á lokastigi og vonast var til þess að Vegagerðin fengi skipið afhent öðru hvoru megin við næstu helgi. Undir lok smíðatímans, þegar átti að fara að ganga frá lokauppgjöri kom upp krafa frá skipasmíðastöðinni um viðbótargreiðslur sem ekki var getið um þegar samið var um smíði skipsins. Bergþóra vill ekki gefa upp hversu há þessi viðbótarkrafa er, en hún sé veruleg. „Hún er þess eðlis að ef hún hefði verið uppi á borði á sínum tíma þá hefði ekki verið samið við skipasmíðastöðina,“ segir Bergþóra og bætir við að þetta geti augljóslega haft áhrif á afhendingu skipsins.

Vegagerðin hefur stungið upp á því við skipasmíðastöðina að ganga frá greiðslum í samræmi við samninginn og taka á móti skipinu og setja það sem menn voru ósammála um í úrskurð gerðardóms. „Því hefur ekki verið tekið ennþá,“ segir Bergþóra.