Um helg­ina var greint frá kröfu frá skipa­smíðastöðinni Crist S.A., sem hef­ur lokið smíði nýs Herjólfs, um viðbót­ar­greiðslur sem ekki eru í sam­ræmi við samn­ing­inn um smíðina, þessari kröfu hafnaði Vegagerðin. Umboðsmaður pólsku skipasmíðastöðvarinnar sem smíðar nýjan Herjólf segir að aukagreiðsla sem farið er fram á, sé vegna breytinga sem hafi þurft að gera á ferjunni vegna þess að upphaflegar teikningar hennar hafi verið rangar. Meðal annars hafi þurft að lengja skipið til að mæta kröfum um djúpristu, greindi Vísir frá í gær.

Björgvin Ólafsson, umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar hér á landi sagði að skipasmíðastöðin vilji ekki ræða samningaviðræður í fjölmiðlum. Í ljósi orða Vegagerðarinnar um að samninganefnd hafi farið til Póllands í síðustu viku vekja þau orð Björgvins athygli að engir samningafundir hafi farið fram. Hann segir að lögfræðingar frá Vegagerðinni og dönsku fyrirtæki hafi verið í Póllandi á dögunum. En það hafi hins vegar ekki verið rætt um viðbótargreiðslu sem skipasmíðastöðin hefur krafist, segir á Vísi.

Skipið er tilbúið til afhendingar og öllum prófunum er lokið. En ekki verður afhending fyrr en samningar nást og skipinu verður haldið þangað til að samið verður.

Við höfum miklar áhyggjur af þessu
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir að samningurinn sé gerður eftir útboði og þar af leiðandi bindandi.  „Við höfðum í sjálfu sér tekið aðrar ákvarðanir ef við höfðum vitað þetta. Þessi krafa kemur ekki upp fyrr en menn fór að huga að loka undirbúningi,“ sagði hún í samtali við Rúv

Hún hafnar því að mistök hafi verið gerð við hönnun skipsins. „Þegar skipasmíðastöðin tekur að sér verkið tekur hún að sér hönnun skipsins og alla vinnu við það, hafi orðið vitleysa er það því undir þeim komið. Það er boðin út frumhönnun og þegar þeir taka hana að sér þá flyst ábyrgðin af kaupanda skipsins yfir á byggjanda og það er mjög skýrt tekið fram í samningum hvaða ábyrgð menn eru að taka sér. Samningurinn er ítarlegur og góður og skýr.“

Hún segir eðlilegt að hafa áhyggjur af stöðu mála. „Við höfum að sjálfsögðu miklar áhyggjur af þessu en það er ekkert sem við hefðum getað gert til að koma í veg fyrir þetta.“ Unnið sé nú að því að fá skipið afhent því langan tíma geti tekið að fá lausn í mál sem þessi með gerðardómi. Skipasmíðastöðin hafi aftur á móti völd til að halda skipinu í Póllandi. „Við höfum völd til að senda þetta til þriðja aðila en við erum að vinna að því að fá skipið afhent því það getur tekið langan tíma að fá þetta útkljáð í gerðardómi.“

Óljósar upplýsingar og umdeilt útborð
Vil­hjálm­ur Árna­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, óskaði í gær eft­ir sér­stök­um fundi í um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd Alþing­is til þess að ræða stöðuna á nýj­um Herjólfi og dýpk­un Land­eyja­hafn­ar. Vill hann fá skýr­ari svör frá Vega­gerðinni.

„Við verðum að fá að vita hvað sé verið að krefja skatt­greiðend­ur um, og af hverju.Hver er fjár­hæðin sem kraf­ist er af rík­inu, og fyr­ir hvað? Þurf­um við að búa okk­ur und­ir það að borga skaðabæt­ur og fáum við skipið kannski ekki af­hent næstu mánuði?“ sagði Vilhjálmur meðal annars.

Einnig ræddi Vilhjálmur dýpkun í Landeyjahöfn og set­ur hann spurn­ing­ar­merki við útboðið og hvort kröf­urn­ar sem þar voru sett­ar fram hafi ef til vill ekki verið nógu greini­leg­ar.