„Mér kem­ur þetta ástand mjög á óvart. Ég er van­ur því að það sé gengið frá öll­um laus­um end­um jafnóðum og það séu eng­ar svona uppá­kom­ur,“ seg­ir Bárður Haf­steins­son, skipa­verk­fræðing­ur hjá Nautic ehf. Hann furðar sig á því hvernig haldið hef­ur verið á mál­um við smíði nýs Herjólfs.

Eins og fram kom í Morg­un­blaðinu í gær til­kynnti Vega­gerðin að skipa­smíðastöðin Crist S.A. í Póllandi, sem smíðar nýj­an Herjólf, hefði á loka­metr­um verks­ins kraf­ist viðbót­ar­greiðslu sem nem­ur nærri þriðjungi af heild­ar­verði skips­ins.

Bárður seg­ir í Morg­un­blaðinu í dag að saga nýs Herjólfs sé hálf klúðurs­leg frá upp­hafi.

„Það er nokkuð lang­ur aðdrag­andi að þessu öllu sam­an. Vega­gerðin legg­ur eft­ir því sem ég best veit fram teikn­ing­ar að þessu skipi. Sá sem ger­ir frum­hönn­un­ina er Jó­hann­es Jó­hanns­son, skipa­tækni­fræðing­ur, sem býr í Dan­mörku, og svo var boðin út frek­ari teikni­vinna. Það var norskt fyr­ir­tæki sem fékk þá vinnu. Síðan er skipa­smíðastöðin lát­in bera ábyrgð á þess­um teikn­ing­um þegar samið er, eft­ir því sem mér er sagt. Mér finnst það dá­lítið und­ar­legt. Þeir eiga að standa ábyrgð á djúpristu og þyngd skips­ins, sem hönnuðu skipið. Svo heyr­ir maður að þegar þeir fara að vinna úr þessu þá komi í ljós að skipið verður allt of þungt. Það er líka of mjótt.“

Mbl.is greindi frá